COVID-19 smit hefur greinst hjá starfsmanni barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík og eru aðrir starfsmenn komnir í sóttkví.
Þetta kemur fram á vef skólans og í tölvupósti sem var sendur á foreldra barna.
„Því miður verðum við að tilkynna ykkur að tekin hefur verið ákvörðun í samráði og samvinnu við Almannavarnir og smitsjúkdómalækni að loka skólanum vegna COVID 19 smits,“ segir í póstinum. Enn fremur er tekið fram að starfsfólk verði í sóttkví fram til 7. september.
Skólasetning var á föstudaginn. Kennarinn sem greindist með smit var ekki að vinna þegar skólasetning var í skólanum og því þykir ekki ástæða til að nemendur og foreldrar fari í sóttkví.
Skólinn reiknar með að hefja starfsemi að nýju þann 7. september en þá verður búið að þrífa húsið og sótthreinsa.