Karlmaður á fimmtugsaldri lést í gær þegar hann missti stjórn á hjóli sínu á þjóðvegi 1 skammt vestan Stigár í Austur-Skaftafellssýslu í gær. Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi en svo virðist sem maðurinn hafi fallið og runnið eftir veginum í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Endurlífgunartilraunir á vettvangi báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir að Lögreglan á Suðurlandi rannsaki málið með aðstoð Tæknideildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Fulltrúar Rannsóknarnefndar samgönguslysa komu einnig á vettvang. Vinnu á vettvangi lauk um klukkan 19.00 en tilkynnt var um slysið til Neyðarlínunnar klukkan 13.36.