Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Umræddur Kastljósþáttur var sýndur 27. mars 2012 en þann dag var gerð húsleit í höfuðstöðvum Samherja í Reykjavík og Akureyri af Gjaldeyriseftirliti Seðlabankans og Embættis sérstaks saksóknara.
Í þættinum, sem verður birtur í dag, er vitnað í leynilega upptöku af samtali Helga Seljan við Jón Óttar Ólafsson afbrotafræðing sem starfar nú fyrir Samherja. Samtalið er frá 2014. Í því segir Helgi að hann hafi ekki fengið neinn hjá Verðlagsstofu til að staðfesta að skýrslan hafi verið unnin þar. Fréttablaðið fékk staðfest hjá Verðlagsstofu að skýrslan hafi ekki verið unnin þar.
Hún var ekki meðal málsgagna í máli Seðlabankans gegn Samherja en þeim þætti málsins lauk 2018 með því að Hæstiréttur felldi niður sekt Seðlabankans á Samherja.
Fréttablaðið hefur eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, að Seðlabankamálinu sé ekki lokið og að upplýsingarnar um skýrsluna hafi komið fram við undirbúning málaferla. Nýju þættirnir séu liður í svörum gegn þeim ásökunum sem hafa komið fram.
„Það hefur legið fyrir um nokkra hríð að við ætluðum að svara þeim ásökunum sem voru bornar á félagið og starfsfólk þess. Í apríl á þessu ári staðfesti Verðlagsstofa skiptaverðs með bréfi til Samherja að það skjal, sem var aðalheimild Kastljóss við gerð þáttar um Seðlabankamálið hinn 27. mars 2012, hefði aldrei verið unnið hjá stofnuninni. Þessi svör Verðlagsstofu staðfesta að Helgi Seljan sagði þjóðinni ósatt í umræddum þætti því hann vísaði ítrekað til „skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs“ í þættinum.“
Er haft eftir Þorsteini sem sagði einnig að rétt sé að hafa í huga að almenningur treysti RÚV og að það segi satt og rétt frá.
„Það er nauðsynlegt að almenningur viti hvernig trúnaðarmaður fólksins, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, fer með heimildir, breytir þeim og hagræðir og lagar fréttaflutning að eigin geðþótta, þvert á lög.“