Talsverður styr hefur staðið um slökkviliðið eftir fjölmarga stóra bruna um allt land undanfarið og athyglin ekki síst beinst að brunaeftirlitinu sem slökkvilið fer með. Í maí kviknaði í íbúðarhúsnæði á Akureyri og var einum bjargað þar út af reykköfurum slökkviliðs. Síðar í maí kviknaði í frystihúsinu í Hrísey og fóru slökkviliðsmenn frá Akureyri með ýmsum leiðum út í eyna. Í júní kviknaði í gaskúti á Akureyri og logaði mikill eldur á svölum húss. Í lok júní brann svo Bræðraborgarstígur 1 með þeim afleiðingum að þrír létust og fjölmargir slösuðust.
Bruninn á Bræðraborgarstíg hleypti af stað talsverðri umræðu um stöðu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og mönnun þess, en líka stöðu brunaeftirlits á landsvísu. Óánægja slökkviliðsmanna með undirmönnun beinist fyrst og fremst að yfirstjórn slökkviliðsins og Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra. Slökkviliðsmönnum þykir undirmönnun stöðva alvarleg og að hún hafi bitnað á öryggi þeirra á vettvangi með óafsakanlegum hætti í brunanum á Bræðraborgarstíg í síðustu viku.
Reiði slökkviliðsmannanna beinist ekki síst að orðum Jóns um að lögreglan hafi verið á staðnum og er sá skilningur lagður í orð Jóns Viðars að það hafi á einhvern hátt átt að koma til móts við hversu fáir slökkviliðsmenn voru á staðnum. Miðað sé við að fimm menn séu á hverjum dælubíl á þremur stöðvum slökkviliðsins í Reykjavík og Hafnarfirði, og að fjórir séu á dælubíl slökkvistöðvarinnar í Mosfellsbæ. Þegar útkallið kom um brunann á Bræðraborgarstíg fóru fjórir dælubílar af stað og voru þeir allir undirmannaðir. Þrír menn voru í tveimur bílanna og tveir í hinum tveimur.
Gríðarlega erfiðar aðstæður
Við slökkviliðsmönnum blasti erfiður vettvangur. Aðkoma var þröng fyrir stóra dælubíla slökkviliðsins og ekki mikið athafnarými fyrir slökkviliðsmenn. Reyndasti reykkafari slökkviliðsins var á einum dælubílnum og bjó hann sig sjálfur undir reykköfun þegar hann kom á vettvang. Alla jafna hefði sá átt að stýra aðgerðum á vettvangi og hafa þar með yfirsýn yfir verkefni slökkviliðsmanna á vettvangi. Enginn sinnti því hlutverki þar til Jón Viðar slökkviliðsstjóri mætti sjálfur á vettvang og tók yfir vettvangsstjórn.
Jón Viðar segir í samtali við blaðamann að það sé ekki endilega birtingarmynd manneklu að slökkviliðsstjóri hafi verið kominn í hlutverk varðstjóra á vettvangi. Eðlilegt þótti að reyndasti reykkafari slökkviliðsins færi í það verkefni.
Eftir fyrstu ferð reykkafara varð mönnum ljóst að sömu menn myndu þurfa að fara aftur inn. Þegar upp var staðið hafði, samkvæmt heimildum DV, að minnsta kosti einn reykkafari farið þrjár ferðir inn. Segir Jón Viðar það vera afbrigðilegt, en ekki óeðlilegt í svo viðamiklu útkalli.
Hann hafi þó tekið ákvörðun um að hætta svokallaðri lífbjörgun þegar loft og gólf voru tekin að hrynja og ekki lengur hægt að tryggja öryggi slökkviliðsmanna á vettvangi. Jón Viðar segir að vel megi gagnrýna þá ákvörðun, en þarna hafi hreinlega ekki annað verið hægt að gera. „Í slíkri ákvarðanatöku þarf að meta ætlaðan árangur af slíkum aðgerðum í samhengi við áhættuna sem slökkviliðsmenn þurfa að taka,“ segir Jón.
Heimildarmenn DV segjast ekki hafa upplifað að öryggi þeirra væri tryggt við vinnu á Bræðraborgarstíg en einn slökkviliðsmaður féll niður fjóra metra. Hann hafði þá farið oftar en einu sinni inn í reykköfun en sömu menn voru á vakt frá því að útkallið hófst klukkan 15.13 þar til önnur vakt mætti klukkan 21. Einn heimildarmanna DV segir að hann og félagar hans séu sárir yfir viðmótinu sem þeir mæta og þeirri staðreynd að undirmönnun sé orðið nýja normið. „Það er undantekning ef það fer fullmannaður bíll á vettvang.“
Slökkviliðsmenn nýttir á sjúkrabíla
Reykköfun reynir gríðarlega á líkamlega. Segir Jón Viðar að slíkt væri ekki á færi meðalmanna úti í bæ. „Þarna var gríðarlegt hitaálag og menn voru að klára kútasettin fljótt.“ „Kútasettin“ sem Jón talar um eru súrefniskútar reykkafara. Endist kútasett að öllu jöfnu í um 15-30 mínútur, eftir hitaálagi, og má því ætla að þrjár ferðir í reykköfun þýði 45-90 mínútna dvöl í brennandi húsi. „Það er ljóst að menn lögðu gríðarlega mikið á sig í þessari aðgerð,“ segir Jón og segist hafa heyrt af því að sömu menn hafi klárað þrjú kútasett við reykköfunina.
Varðandi mönnun dælubíla segir Jón það vera rétt sem komið hafi fram. Það hafi verið stefna slökkviliðsins í brunavarnaáætlun að samnýta mannskap slökkviliðs og sjúkraflutninga. „Slökkviliðsmenn eru krossmenntaðir slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn og er mannskapurinn nýttur á víxl,“ segir Jón og bendir á að slíkt sé samkvæmt áætlun slökkviliðsins sem er samþykkt af stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.
Hins vegar hafi tíðni þess að slökkviliðsmenn séu nýttir í forgangsútköll á sjúkrabílum aukist. Þegar útkallið á Bræðraborgarstíg barst slökkviliðinu hafi talsverður fjöldi slökkviliðsmanna verið í slíkum útköllum. Tveir bílar voru í erfiðu sjálfsvígsmáli að sögn Jóns, sá þriðji að sinna meðvitundarlausu ungmenni, og sá fjórði í gjörgæsluflutningi á milli spítala. Spurður hvort þetta sé ekki hrein og klár birtingarmynd manneklu og fjárskorts segir Jón Viðar að staðan sé vissulega tilefni til þess að „rýna í endurskoðunarákvæði brunavarnaáætlunar“.
Allt tiltækt lið kallað út
Allt tiltækt lið slökkviliðs var kallað út í eldsvoðann í síðustu viku og menn á frívakt einnig. Hins vegar hafi einhver mannskapur sem kallaður var út farið í að sinna sjúkraflutningum. Enn fremur hafi tilkynning um annan eldsvoða borist slökkviliði undir lok aðgerða á Bræðraborgarstíg og hafi þurft að bregðast við því.
Slökkviliðsmönnum er alla jafna ekki boðin áfallahjálp eða utanaðkomandi aðstoð eftir útköll sem þetta heldur byggist félagsstuðningur þeirra fyrst og fremst á því að þeir sjái hver um annan, segir heimildarmaður DV innan slökkviliðsins. Menn séu þjálfaðir í að veita áfallahjálp og að hlúa hver að öðrum. Er það mat manna að slíkt fyrirkomulag hafi gefist vel.
Brotalamir í brunavörnum
Talsverð umræða hefur einnig skapast um ástand brunavarna í kjölfar brunans. Sagði DV frá því fyrr í vikunni að brunavörnum og eftirliti með byggingu mannvirkja og notkun þeirra væri á höndum 122 mismunandi aðila á landinu. Má þar nefna 38 slökkvilið, 74 byggingafulltrúa, tíu heilbrigðiseftirlit og Húsnæðisog mannvirkjastofnun. Sú síðastnefnda, HMS, má segja að gegni eftirlitshlutverki með öllum ofangreindum, sé nokkurs konar eftirlitsaðili eftirlitsaðila.
Brunaeftirlit HMS á nú að senda á Sauðárkrók þar sem stofnunin er þegar með starfsemi. Er það í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga ríkisstörfum á landsbyggðinni. Heimildarmenn DV innan raða slökkviliðs segjast uggandi yfir þeim bollaleggingum, enda sterk starfsemi brunaeftirlits HMS nauðsynleg slökkviliðum um allt land. Hafa þessir sömu heimildarmenn einnig bent á að missir verði að Davíð Snorrasyni sem ekki ætlar að fylgja með stofnanaflutningum norður á land.
Davíð þykir hafa eflt starf Brunaeftirlits HMS til muna og sagt er að himinn og haf sé á milli starfs stofnunarinnar í þessum málaflokki nú og áður en Davíð tók við. Óttast menn að stofnanaþekking muni tapast við flutningana og að það muni bitna á brunavörnum um allt land. Jón Viðar Matthíasson sagði við DV að samstarf slökkviliðs við HMS og Davíð hefði verið til fyrirmyndar. „Við munum sakna samvinnu okkar og Davíðs,“ sagði Jón. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir að þekking hverfi við flutninginn, sér í lagi ef enginn starfsmaður brunaeftirlits HMS ætli sér að fylgja stofnuninni norður.
Ýmsar aðrar brotalamir virðast vera á brunaeftirlitskerfinu hér á landi. Má til að mynda nefna að ekki öll slökkvilið landsins skila eftirlitsskýrslum eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir og eftirlitsmenn eru á mörgum stöðum mun færri en eiga að vera. Í höfuðborginni er einn eftirlitsmaður fyrir hverja 44 þúsund íbúa, þrátt fyrir að reglugerð segi að einn skuli vera fyrir hverja 10 þúsund. Engin formlegur samstarfsvettvangur er á milli eftirlitsaðilanna sem allir stunda eftirlit með sömu mannvirkjunum en hver með sinni starfseminni.
Ein skoðun á dag alla daga ársins
Eftirlitsáætlanir eiga samkvæmt reglugerð að taka til allra mannvirkja sem falla í vissa nýtingarflokka byggingarreglugerðar. Eru það til dæmis mannvirki sem hýsa sambýli, fangelsi og aðra staði þar sem fólk er læst inni af einum eða öðrum ástæðum, gistiheimili og hótel, stór iðnaðarhúsnæði og mannvirki sem kunna að reynast slökkviliði erfið viðureignar ef upp kæmi eldsvoði. Á höfuðborgarsvæðinu eru þetta um 3.200 mannvirki sem þarf að skoða ýmist árlega eða á fjögurra ára fresti. Samanlagt gera það um 1.200 skoðanir á ári sem reiknast niður á eina mannvirkjaskoðun á hvern eftirlitsmann, hvern einasta virka dag ársins.
Íbúðarhúsnæði er að jafnaði ekki skoðað af slökkviliði nema á byggingarstigi og hefur slökkviliðið engin úrræði til þess að bregðast við rangri nýtingu húsnæðis. Það fellur undir verksvið byggingarfulltrúa. Hin hliðin á þessum sama peningi er svo þegar iðnaðarhúsnæði er nýtt sem ósamþykkt íbúðarhúsnæði. Þar hefur slökkvilið fulla heimild til að skoða eignirnar, enda er umráðafólki iðnaðarhúsnæðis óheimilt að meina slökkviliði inngöngu. Hins vegar hefur slökkvilið ekkert að segja um hugsanleg brot á nýtingu húsnæðisins. Það er á forræði byggingarfulltrúa.
306 mannvirki á svörtum lista slökkviliðs
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur tekið saman lista yfir iðnaðarhúsnæði nýtt sem ósamþykkt íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Á listanum er nú 306 heimilisföng, þar af 130 í Reykjavík, 81 í Hafnarfirði og 64 í Kópavogi. Þvingunarúrræði slökkviliðs eru til staðar í lögum um brunavarnir en þeim er afar sjaldan beitt og leiðir fram hjá þeim. Samkvæmt heimildarmanni DV innan slökkviliðs nægir að gangast við brotum á eldvörnum og lofa úrbótum til þess að fá dagsektir felldar niður.
Viss pattstaða er því í þessum málaflokki hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem brunaeftirlitið sinnir eftirliti með brunavörnum húsnæðis, byggingafulltrúi sveitarfélaganna sinnir eftirliti með ástandi byggingar og nýtingu hennar og að sama máli koma líka heilbrigðiseftirlitið, vinnueftirlitið og Húsnæðisog mannvirkjastofnun. Einhverjar stofnanir eru á vegum ríkis og aðrar á vegum sveitarfélaga.
Ein höndin er upp á móti annarri, verkefni skarast og allir bera ábyrgð og þegar allir bera ábyrgð, ber enginn ábyrgð, segir heimildarmaður DV.