Dúndrandi þungarokkstónleikar um fjögurleytið á föstudegi beint fyrir utan snyrti- og nuddstofuna Reykjavík Day Spa, á horni Vitastígs og Laugavegar, urðu til þess að starfsfólk stofunnar varð að senda viðskiptavini heim, par sem var í nuddi og mæðgur sem voru í handsnyrtingu.
Atvikið átti sér stað á föstudegi í júnímánuði og var hluti af verkefninu Sumarborgin. Fjölmargar götusýningar, tónleikar og fleiri uppákomur hafa verið haldnar í sumar á þeim hluta Laugavegarins sem lokaður er fyrir bílaumferð. Hefur þetta framtak almennt vakið ánægju þeirra sem leggja leið sína um miðbæinn og lífgað mjög upp á Laugaveginn. Hins vegar virðist upplýsingastreymi til íbúa eitthvað hafa verið ábótavant eins og kom fram í frétt okkar í gær:
Þar kemur fram að íbúar við Laugaveg 27 eru þreyttir á gífurlegum og langvarandi hávaða frá útiporti bakvið tónleikastaðinn Dillon þar sem tónleikar hafa verið í sumar, allt að sex klukkustundir í einu, frá því síðdegis og fram eftir kvöldi, með afar miklum hljóðstyrk. Enn fremur greindi frá því að kabarett-sýning hafði verið haldin á einkalóð í portinu bak við Laugaveg 27 án vitundar íbúa, ruslastunnur höfðu verið fjarlægðar og íbúi í húsinu var krafinn um aðgangseyri á sýninguna er viðkomandi ætlaði að fara inn til sín. Þá varð slys hjá eldgleypi á sýningunni og kveikti hann í sjálfum sér og timburpalli sem sýningin fór fram á, alveg upp við húsið, sem er yfir 100 ára gamalt timburhús.
„Mér finnst alveg eðlilegt að halda útitónleika að kvöldi en þetta var um miðjan dag og var mjög óþægilegt fyrir okkur,“ segir starfskona á snyrti- og nuddstofunni Reykjavík Day Spa, en stofan er í eigu pólskra kvenna sem þar starfa.
„Ég fór út og spurði einn í hljómsveitinni hvort þeir gætu ekki hætt og spilað á eftir því ég væri með viðskiptavini inni sem væru að reyna að slaka á. En hann benti mér á að þeir væru með leyfi frá lögreglunni til að halda tónleika,“ segir konan. Nuddstofan er opin virka daga frá hádegi til kl. 18. Uppákomur og tónleikar sem haldnir væru eftir kl. 18 eða um helgar myndu því ekkert trufla starfsemina.
„Það var fólk hjá okkur í paranuddi og við urðum að senda þau burtu. Auk þess var kona hérna í handsnyrtingu og með henni var þriggja ára dóttir hennar. Við gátum ekki talað saman fyrir hávaða. Það var mjög óþægilegt fyrir okkur að þetta skyldi byrja svona snemma.“