Ríkið var fyrr í dag dæmt til að greiða Steinbergi Finnbogasyni lögmanni 1.500.000 krónur í miskabætur vegna „ólögmætrar meingerðar“ í garð Steinbergs. Steinbergur var árið 2016 handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðahald vegna rannsóknar saksóknarans á fjársvikamál. Steinbergur, sem komið hafði fram fyrir hönd sakborninga í málinu, var síðar handtekinn sjálfur vegna málsins og gert að sæta upptöku ýmissa gagna, þar á meðal ganga um mál sem Steinbergur hafði unnið að sem lögmaður. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður úrskurðað að héraðssaksóknari hafi gengið of langt í haldlagningu gagna og gert héraðssaksóknara að eyða hluta gagna sem hald var lagt á.
Steinbergur gerði 10 milljóna bótakröfu í málinu, þar af fimm milljónir í miskabætur vegna brota gegn friði, persónu og æru hans, og aðrar fimm vegna fjártjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna húsleitar, handtöku, gæsluvarðhalds og eftirmála af aðgerðum lögreglu.
Forsaga málsins er sem fyrr segir sú að skjólstæðingur Steinbergs var sakborningur í umfangsmiklu peningaþvættismáli sem til rannsóknar var hjá embætti héraðssaksóknara. Þegar Steinbergur mætti á skrifstofur héraðssaksóknara árið 2016 til að sinna erindum skjólstæðings síns, var Steinbergur þess í stað handtekinn og honum tilkynnt að hann hefði sjálfur stöðu sakbornings í þessu sama máli. Steinbergur var í kjölfarið handjárnaður og leiddur út í lögreglubifreið og honum ekið að lögmannsstofu sinni þar sem húsleit fór fram. Þar lagði lögregla hald á talsvert magn gagna, þar á meðal möppu með gögnum um mál skjólstæðings Steinbergs.
Steinbergur var í haldi lögreglu, fyrst yfir nótt í fangaklefa og síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald í tvo sólarhringa. Samtals var Steinbergur því í haldi lögreglu í þrjá sólarhringa og sex klukkustundir. 19 mánuðum seinna var málið láta niður falla þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar.
Steinbergur gerði kröfu um 10 milljóna bótakröfu, þar af fimm milljónir í miskabætur vegna brota gegn friði, persónu og æru hans, og aðrar fimm vegna fjártjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna húsleitar, handtöku, gæsluvarðahalds og eftirmála af aðgerðum lögreglu.
Héraðsdómur kemst nú að þeirri niðurstöðu að þvingunarráðstafanir sem Steinbergi hafi verið gert að sæta væru of íþyngjandi. Á dómurinn þar við handtöku, húsleit á starfstöð (sem Steinbergur var viðstaddur í handjárnum), húsleit á heimili, haldlagning gagna og frelsissviptingar í þrjá sólarhringa og sex stundir, þar af í einangrun í gæsluvarðhaldi í þrjá sólarhringa og sex klukkustundir auk óeðlilegs dráttar á málinu.
Segir í dómnum:
Við það mat telur dómurinn að sérstaklega verði þá að líta til þess, að hvað sem líður upphaflegu réttmæti umræddra ráðstafana gagnvart stefnanda miðað við það sem þá lá fyrir í málinu í ljósi framburða annarra, þá reyndist sá grunur þegar uppi var staðið reistur á veikum grunni, og reyndist sérlega afdrifaríkt fyrir stefnanda og þá ekki síst fyrir stöðu hans sem starfandi lögmanns. Blasir við að umræddar ráðstafanir og framkvæmd þeirra reyndust í mörgu tilliti vera sérlega íþyngjandi fyrir stefnanda sem lögmann, en lögmenn reiða sig öðru fremur á mannorð sitt og traust samborgara sinna. Þá liggur einnig fyrir að mál þetta hefur eðli máls samkvæmt reynst vera stefnanda sérlega erfitt persónulega í mörgu tilliti, eins og málsgögn varpa skýru ljósi á, sem og einnig framburður hans sjálfs hér fyrir dómi. Í ljósi þessa, sem og alls hér framangreinds, þá verða þær miskabætur sem stefnda verður því gert að greiða til stefnanda hér hæfilega metnar sem alls 1.500.000 krónur.
Í dóminum segir jafnframt að þó ætli megi að fjártjón Steinbergs vegna aðgerða héraðssaksóknara hafa verið eitthvert, sé það ekki sannað í gögnum málsins og ríkið því ekki dæmt til að greiða skaðabætur.