Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að mælast til þess að slakað verði frekar á reglum samkomubanns strax eftir verslunarmannahelgi, að því tilskildu að ekki verði breytingar til hins verra á hegðun kórónuveirunnar hér á landi. Mun hann leggja til einhverja rýmkun á opnun skemmtistaða sem nú mega bara hafa opið til kl. 23 og að samkomuhámark fari úr 500 upp í 1000 manns.
Þetta kom fram á upplýsingafundi dagsins hjá Almannavörnum.
Talið er að ferðamannastraumur til Íslands muni aukast á næstu dögum og vikum en ekki er ljóst hvenær hámarksfjölda sem hægt er að skima verður náð. Hámarkið í dag eru 2000 einstaklingar á dag. „En við verðum að vera tilbúin að mæta því ef hámarkinu er náð og gott betur,“ sagði Þórólfur.
Engin ný smit greindust í gær en þrír greindust með gömul smit. Síðasta sólarhring var sýni tekið úr yfir 1.900 manns en alls komu tæplega 2.300 manns til landsins í gær.