Slökkviliðið á Höfuðborgarsvæðinu leysti óvenjulegt verkefni í gærkvöldi, en þá var páfagaukurinn Ari fastur uppi á þaki. Þetta kemur fram á Facebook-síðu slökkviliðsins.
„Verkefni sem berast á borð okkar geta verið af ýmsum og merkilegum toga. Til dæmis gerðist það í gærkvöldi að hringt var inn vegna þess að það væri páfagaukur fastur uppi á þaki. Það runnu tvær grímur á okkur en við sendum bíl á staðinn.“
Slökkviliðinu virðist hafa átt í einhverjum erfiðleikum með að koma Ara niður. Það var hins vegar hægt þegar að stúlkan sem að var að passa hann fór ásamt öðrum páfagauki, Gló til Ara.
„Þar kom í ljós að páfagaukurinn Ari var uppi á þaki, Ari er ansi stór eins og sjá má á myndunum, en hann var ragur að koma niður.
Úr varð að stúlkan sem var að passa páfagaukinn Ara fór upp með páfagaukinn sinn sem heitir Gló og í sameiginlegu átaki stúlkunnar, Glóar og tveggja slökkviliðsmanna féllst Ari á að koma niður í körfunni.“