„Ég er til í að gera hvað sem er til að þetta hætti og þess vegna er ég til í að tala við fjölmiðla um málið,“ segir fjölskyldufaðir í Rimahverfi en eiginkona hans varð fyrir óskemmtilegri reynslu á föstudaginn er nágranni þeirra beraði sig í glugga íbúðar sinnar og fitlaði við kynfæri sín. Voru börn að leik fyrir utan. Maðurinn hefur hlotið þrjá dóma fyrir samskonar athæfi.
Málið hefur verið rætt í íbúahópi á Facebook og virðist maðurinn vera farinn að láta að sér kveða aftur í þessum efnum eftir að hafa haldið sig til hlés um nokkurt skeið. Hann var síðast dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot af þessu tagi árið 2014. Barnaleikvöllur er rétt hjá heimili mannsins. Maðurinn býr á jarðhæð í fjölbýlishúsi og er þetta því mjög áberandi sjón fyrir þá sem hætta sér nálægt íbúð hans.
„Lögreglan kom hingað fyrir tveimur eða þremur vikum. Ég varð þá vitni að því að farið var með hann út í lögreglubíl. Ég veit ekki hvað hann gerði þá, varð ekki vitni að því,“ segir fjölskyldufaðirinn í viðtali við DV. Varðandi atvikið síðastliðinn föstudag segir hann:
„Þetta gerðist þegar ég var að koma heim úr vinnunni. Konan mín var úti með litla barnið okkar og það var hellingur af krökkum þarna á svæðinu. Síðan gerist það að tvær stelpur voru að skoða blómin í brekkunni fyrir framan heimili hans. Konan mín fylgdist með þeim því hún veit af sögu þessa manns. Um leið og stelpurnar eru komnar að brekkunni rífur hann gardínurnar frá glugganum og byrjar að fitla við sig. Það var eins og hann fylgdist með og biði eftir tækifærinu. Og hann stoppaði ekkert þó að hann sæi konuna mína. Hún hringdi í lögregluna og lét mig vita af þessu. Hún sendi alla krakkana heim til sín, kom boðum til foreldra og smám saman fengu allir foreldrar í nágrenninu vitneskju um þetta.“
Fjölskyldan flutti í hverfið fyrir um tveimur árum og var þeim þá þegar greint frá fortíð mannsins. „Það er eins og hann sé að færast í aukana núna, ég held að hann hafi haldið sig til hlés í töluverðan tíma. Fyrir nokkrum árum var algengt að krakkar væru að brjóta gluggana hjá honum og það voru örugglega mest brotnu gluggarnir í Grafarvoginum. En það stoppar hann ekki.“
Þessi viðmælandi DV segist ekki vita til þess að maðurinn hafi nokkurn tíma verið sakaður um önnur kynferðisbrot. „Ég veit ekki til að hann hafi reynt að lokka krakka inn til sín eða neitt þess háttar.“
Þess má geta að maðurinn er hátt á áttræðisaldri. Viðmælandi DV segist umfram allt óska þess að maðurinn leiti sér hjálpar. Erfitt sé að flæma hann burtu af því hann eigi íbúðina sjálfur.
„Annar íbúi hérna vildi helst að við færum inn til hans og töluðum við hann. Mér þótti hins vegar skynsamlegra að láta lögregluna bara um þetta.“
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2011 og sá dómur var staðfestur í Hæstarétti sama ár. Reifun dómsins er eftirfarandi: „R var ákærður fyrir að hafa sært blygðunarsemi A og B með því að hafa staðið fyrir innan óbyrgðan glugga á heimili sínu í fráhnepptri skyrtu einni fata og strokið á sér getnaðarliminn. Með vísan til framburðar A, B og R var R sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda þótti háttsemi hans til þess fallin að særa blygðunarsemi þeirra sem yrðu vitni að henni. Var R gert að sæta fangelsi 4 mánuði en frestað var fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum haldi R almennt skilorð.“
Um málsatvik segir: „Síðdegis sunnudaginn 16. maí 2010 var óskað aðstoðar lögreglu að […] í Reykjavík, þar sem maður væri að handleika getnaðarlim sinn í augsýn barna og fullorðins fólks. Á vettvangi hittu lögreglumenn A, sem sagðist hafa litið út um glugga á heimili sínu andspænis húsinu að […]. Hafi hann þá séð mann úti í glugga sem var að fróa sér fyrir framan börn sem léku sér á leikvelli við húsið. Reyndist vera um ákærða að ræða og ræddu lögreglumenn við hann. Er haft eftir ákærða í skýrslu lögreglu að þetta væri mjög eðlileg hegðun og að allir gerðu svona. Hann gæti ekki að því gert að einhverjum börnum þætti þetta ógeðslegt. Það kæmi þeim ekki við hvað hann gerði á sínu heimili.“
Athygli vekur að maðurinn taldi hegðun sína eðlilega í lögregluyfirheyrslu en fyrir dómi var framburðurinn á annan veg, þar sem hann neitaði því að hafa verið að fróa sér og kom með allt aðrar ástæður fyrir nekt sinni, að honum hafi verið heitt og hann svitnaði mikið.
Maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann rauf skilorðið með viðlíka broti og var dæmdur í sex mánaða fangelsi og blygðunarsemisbrot þann 8. febrúar 2013, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Árið 2014 var hann síðan sakfelldur fyrir að hafa berað sig í glugganum fyrir tveimur drengjum, öðrum níu ára. Ekki þótt fullsannað að hann hefði fróað sér fyrir framan drengina og var hann sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Fékk hann tveggja mánaða fangelsisdóm fyrir brotið.