„Við þekkjum þessi heimilisföng. Þetta eru óboðlegir mannabústaðir og það hefur fjallaðu um þetta í íslensku samfélagi í mörg ár,“ sagði Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2. Umræðuefnið var húsbrunin við Bræðraborgarstíg og fyrir helgi þar sem þrír létust og þrír aðrir liggja þungt haldnir.
Hundruðir barna búa við skelfilegar aðstæður
Viðar segir íslenskt samfélag vel vita af fjölda húsa þar sem fólk í þúsunda tali býr við skelfilegan aðbúnað. „Börn sem að búa þar, jafnvel hundruðum saman,“ segir Viðar. Oft sé um iðnaðarhúsnæði að ræða með óboðlegri hreinlætisaðstöðu og brunavörnum.
Hann segir ítrekað búið að fjalla um skelfilega aðstöðu í húsinu sem bruninn átti sér stað í. Meðal annars hafi Stundin fjallað ítarlega um það fyrir fimm árum með engum sjáanlegum árangri og Kveikur hafi gert úttekt á starfsmannaleigum þar sem húsið kom við sögu en skelfilegar aðstæður fólksins hafi ekki breyst.
Á meira skylt við mansal
„Þetta eru allt saman þekktir aðilar sem er einfalt mál er að fletta upp í opinberum skrám,“ segir Viðar aðspurður um hverjir eigi húsið. Hann segist þekkja til eigandanna í samhengi við slæma meðferð á starfsfólki.
Viðar segir Eflingu hafa síðustu ár færst í aukana að fylgja eftir slæmum aðstæðum félagsmanna sinna fyrir utan vinnustaðinn þar sem komið er á mjög óheilbrigðu sambandi. „Fólk er dregið inn í aðstæður sem ég myndi treysta mér til að segja að eigi meira skylt við mansal en heldur en eðlilegt ráðningasamband. Þarna er verið að tengja saman ráðningasamkomulag og að hola fólki niður í fullkomlega ógeðslegu og óboðlegu húsnæði. Þetta er svo samnýtt til þess að gera starfsmanninn algerlega berskjaldaðan.“ Hann segir starfsmanninn verða algerlega háðan atvinnurekandanum því ef hann kvarti undan launum þá sé hægt að hóta viðkomandi að henda honum út úr húseigninni og öfugt.
Engin refsing fyrir launaþjófnað
„Þetta hefur verið tikkandi tímasprengja árum saman. Þetta kemur ekki á óvart því miður.“ Viðar segir húsnæði í ætt við það sem brann á Bræðraborgarstíg vera mjög víða og ekkert sé gert.
Viðar gagnrýnir hið opinberlega harðlega. „Það eru engar refsingar fyrir að ástunda launaþjófnað á Íslandi.“ Hann vísar í ósamræmi í kerfinu og segir „Ólíkt því að stela samloku úr 10-11,“segir Viðar og vísar í nýlegan dóm þar sem kona hlaut 60 daga skilorðsbundinn dóm fyrir að stela samloku fyrir nokkur hundruð krónur.
Viðar segist binda vonir við að félagsmálaráðherra láti til sín taka í málaflokknum. „Ég vil hvetja ráðherra til þess að hlusta frekar á heilbrigða skynsemi og á samvisku sína frekar en kröfur sérhagsmunasamtaka í þessu málum og innleiða almennilegar refsi og sektarheimildir.“