Morgunblaðið skýrir frá þessu. Í tæplega 20 ár hafa núverandi eigendur mannvirkja gamla héraðsskólans í Reykjanesi rekið gistihús, tjaldsvæði og sundlaug þar. Frá því á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar hefur heitt vatn verið notað þarna og hafa eigendurnir gert það allan tímann sem þeir hafa verið með starfsemi þarna. Orkustofnun veitti Ferðaþjónustunni nýtingarleyfi á jarðhita. Orkubú Vestfjarða telur sig eiga hitaréttindin og Ísafjarðarbær er landeigandinn. Þessir aðilar kærðu leyfisveitingu Orkustofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fengu henni hnekkt.
„Við teljum okkur eiga nýtingarrétt samkvæmt kaupsamningi við ríkið og lóðarsamningi Ísafjarðarbæjar en komumst ekki neitt.“
Hefur Morgunblaðið eftir Jóni Heiðari.
Fyrirtækið sendi Ísafjarðarbæ bréf í nóvember síðastliðinn en engin svör hafa borist og stjórnendur bæjarins hafa ekki svarað í síma né tölvupóstum. Haft er eftir Jóni að hann hafi í bréfinu skýrt mál sitt og óskað eftir að stjórnendur Ísafjarðarbæjar færu yfir málið. Hann hafi ítrekað þetta í bréfi þann 1. júní en það hafi heldur ekki skilað árangri.
„Mér finnst erfitt að reka hér hótel, tjaldsvæði og sundlaug í óþökk sveitarfélagsins. Það er tilgangslaust að halda áfram uppbyggingu þegar réttindi sem við teljum okkur eiga fást ekki viðurkennd.“
Er haft eftir Jóni en hótelinu var lokað í haust og hefur ekki verið opnað aftur vegna deilunnar. Jón segir það gert til að þvinga fram svör og viðurkenningu á nýtingarrétti að heita vatninu.