Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að í Reykjavík hafi notkunin helmingast á einu ári, úr 12% niður í 6%.
„Það má segja að samfélagið hafi vaknað gagnvart þessu á síðasta ári. Fréttir fóru að berast af veikindum fólks og almennt séð fórum við að tala um skaðsemi rafretta.“
Hefur Fréttablaðið eftir Margréti Lilju Guðmundsdóttur sérfræðingi hjá Rannsóknum og greiningu.
Í september á síðasta árið skýrði Landlæknisembættið frá því að lungnaveikindi íslensks unglings tengdust rafrettunotkun. Í Bandaríkjunum voru sambærileg veikindi þá orðin um 500.
„Við sáum það í gögnunum okkar að unglingar upplifðu mildara viðhorf foreldra sinna gagnvart rafrettum en sígarettum eða áfengi. Að foreldrarnir hafi ekki talið þær jafn skaðlegar.“
Er haft eftir Margréti.
Á síðasta ári voru sett ný lög um rafrettur sem banna meðal annars auglýsingar eða myndmál sem gæti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna. Einnig er bannað að nota rafrettur í skólum, almenningsfarartækjum, íþróttahúsum og mörgum öðrum stöðum.