Karlar eru í aðalhlutverki í auglýsingaherferð Íslandsbanka fyrir Reykjavíkurmaraþonið nú í ár. Rúmlega hálft ár er síðan Íslandsbanki gaf út yfirlýsingu um að bankinn myndi hætta í viðskiptum við þá fjölmiðla sem ekki væru með kynjahlutföllinn í lagi, það er segja, stæðust ekki skilyrði sem snúa að kynjahlutföllum hvað varðar þáttagerðarmenn og viðmælendur. Edda Hermannsdóttir markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka segir í samtali við DV að gætt hafi verið að kynjahlutföllum við gerð auglýsingaherferðarinnar.
Tökur á sjónvarpsauglýsingu fyrir Reykjavíkurmaraþonið fóru fram í miðborg Reykjavíkur um síðustu helgi en það er Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr. sem andlit Reykjavíkurmaraþonsins í ár. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn bregður fyrir í litlu hlutverki og þá sér Hannes Halldórsson um leikstjórn.
Steindi og Hannes birta ljósmyndir frá tökum á Instagram og ljóst er að mikið fjör var á tökustað.
View this post on Instagram
Við félagarnir fórum yfir stöðuna, bjartir tímar framundan. Skýrsla væntanleg 🍻☀️
Í samtali við DV segir Edda að rætt hafi verið við fleiri aðila um aðkomu að maraþoninu en á endanum hafi verið ákveðið að vinna verkefnið með Steinda og fá Hannes sem leikstjóra.
Hún bendir á að konur séu eins og og Víðir í mörgum aukahlutverkum og er framleiðsluhópurinn mjög blandaður. „Okkur var einmitt mjög umhugsað um að hafa sem jafnast hlutfall karla og kvenna í auglýsingunni og í framleiðsluteyminu og það var sérstaklega rætt. Við erum mjög meðvituð um að reyna að passa þessi hlutföll.“
Þá bendir Edda á að undanfarin misseri hafi bæði karlar og konur verið andlit Reykjavíkurmaraþonsins.
„Ef við horfum til undanfarinna ára þá sést að þetta hefur verið í báðar áttir. Við vorum til dæmis með Maraþonmæðgurnar árið 2015,“ segir Edda og á þar við mæðgurnar Halldóru Geirharðsdóttur og Steiney Skúladóttur. „Í fyrra var svo blandaður leikarahópur.“
Þá bendir Edda jafnframt á að konur komi fram í öðrum auglýsingum frá Íslandsbanka um þessar mundir. „Þetta er bara ein auglýsing af mörgum.“