Í umræðu um mansal hefur vinnumansal fallið nokkuð í skuggann af umræðu um kynlífsþrælkun og barnaþrælkun. Á Íslandi er vinnumansal hins vegar algengasta birtingarmynd mansals og vinnueftirlitsaðilar á vegum ASÍ rekast á dæmi um slíkt næstum því daglega.
Birtingarmyndir vinnumansals hér á Íslandi eru oftast þær að einstaklingar eru blekktir til að koma til landsins, loforð og samningar eru svikin og þessu fólki oft haldið í einangrun og án upplýsinga um rétt sinn.
ASÍ fjallar um vinnumansal í nýju myndskeiði sem finna má á vef sambandsins og í spilaranum hér fyrir neðan fréttina. Er þar rætt við Maríu Lóu Friðjónsdóttur, verkefnastjóra vinnustaðaeftirlits ASÍ, og Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, sérfræðing í dómsmálaráðuneytinu.
„Ég get t.d. nefnt dæmi um konu sem var að vinna á gistihúsi úti á landi. Eftir tveggja mánaða vinnu stóð hún uppi með 30 þúsund krónur í vasanum,“ segir María en vinnumansal er algengast í byggingariðnaði og var það einnig til skamms tíma í ferðaþjónustu, sem nú er í tímabundnu frosti vegna kórónuveirunnar. Umrædd kona vann á afskekktu gistiheimili og vinnudagur hennar var frá klukkan sjö á morgnana og langt fram á kvöld. Konunni hafði verið lofað góðum launum en hún var að vinna sér fyrir námi. Segir María að miklar lygar og blekkingar hafi verið í þessu máli.
María segir að allt að 400 manns tengist vinnumansali á Íslandi. Stundum sé þetta hrein og klár nauðungarvinna sem fólk lendir í. „Það eru dæmi um að fórnarlömbin komi út í mínus eftir mánaðarvinnu þar sem alls kyns kostnaður sé dreginn frá „launum“.“
Svala svarar fyrir hvað verið sé að gera af hálfu dómsmálaráðuneytisins til að vinna gegn vinnumansali. Sjá viðtalið hér að neðan.