„Icelandair stillir nú stéttarfélögum upp við vegg og reynir að gera þau ábyrg fyrir stöðunni og þeirri áskorun að skapa fyrirtækinu rekstrargrundvöll til framtíðar með því að umturna gildandi kjarasamningi og samþykkja mikla kjaraskerðingu til framtíðar.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flugfreyjufélagi Íslands sem gefin var út í morgun.
Fram kemur að frá því kórónuveiran lamaði allt flug í mars hefur Flugfreyjufélag Íslands leitað allra leiða til að koma til móts við Icelandair til að hjálpa fyrirtækinu í vandræðum þess.
„Flugfreyjur/-þjónar hafa verið án kjarasamnings í eitt og hálft ár, og því ekki notið neinna kjarabóta ólíkt flestum á vinnumarkaði, en engu að síður hefur Flugfreyjufélagið boðið Icelandair tilslakanir á kjarasamningi félagsmanna meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir.“
Þá segir að þegar um miðjan apríl hafi Flugfreyjufélagið fram tilboð til Icelandair um langtímasamning sem fól í sér verulegar tilslakanir, aukinn sveigjanleika og lengri vinnutíma. Slíkar tilslakanir hafi komið verulega til móts við kröfur um fyrirsjáanleika og hefðu haft umtalsverðar kostnaðarlækkanir í för með sér fyrir flugfélagið en að sama skapi kjaraskerðingu fyrir félagsmenn.
„Icelandair hafnaði þessu tilboði og hefur krafist tugprósenta launalækkana og skerðingar á réttindum flugfreyja/-þjóna til frambúðar.
Starf flugfreyja/-þjóna er ekki hálaunastarf. Meðallaun félagsmanna með áratuga starfsreynslu eru talsvert undir meðallaunum í landinu. Icelandair stillir nú stéttarfélögum upp við vegg og reynir að gera þau ábyrg fyrir stöðunni og þeirri áskorun að skapa fyrirtækinu rekstrargrundvöll til framtíðar með því að umturna gildandi kjarasamningi og samþykkja mikla kjaraskerðingu til framtíðar.
Flugfreyjufélagið hefur ekki verið tilbúið að fórna á einu bretti grundvallarréttindum í kjarasamningi, sem tekið hefur áratugi að berjast fyrir, vegna þeirrar tímabundnu stöðu sem uppi er.
Þekkt er að á krepputímum sé vegið að kjörum og réttindum vinnandi fólks. Gegn slíku mun Flugfreyjufélag Íslands standa.“