María Stefánsdóttir, sölustjóri Icelandair á Íslandi birti í kvöld pistil á Facebook. Þar ræddi hún orð Boga Nils Bogasonar um að helsta fyrirstaða þess að hægt sé að bjarga Icelandair frá falli séu starfsmennirnir.
Þessi orð Boga voru mikið gagnrýnd, en María telur að þau hafi verið mistúlkuð. Hún segir að ummæli hans snúist um að það sé á ábyrgð allra hjá Icelandair að bjarga félaginu, þau megi ekki vera helsta hindrunin.
„Orð Boga um að helsta fyrirstaðan fyrir því að það takist að bjarga Icelandair séum „við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu” hafa fengið hörð viðbrögð víða, ekki síst hjá forystumönnum í verkalýðshreyfingunni. Ég skil það að mörgu leyti, en það er auðvelt að snúa út úr þessum orðum og túlka þau bara á versta veg. En ef þessi orð eru lesin rétt þá blasir meiningin við: Það er ábyrgð okkar allra að bjarga Icelandair, við sjálf megum ekki vera helsta hindrunin. Ég skil þessi orð hans þannig að hann sé að tala um okkur öll: stjórnendur, okkur sem vinnum á skrifstofunni og höfum þegar samþykkt skert launakjör, og auðvitað líka flugfreyjur, flugmenn og flugvirkja, og aðra starfsmenn.“
Þá gagnrýnir María viðbrögð Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, en hún segir ummæli hans vera ósanngjarna útúrsnúninga og árásir.
„Í þessu ljósi þótti mér, sem félagsmanni í VR, ömurlegt að lesa um árásir Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns félagsins, á stjórnendur Icelandair og hvernig hann kýs að snúa út úr orðum forstjórans Ragnar Þór talar um „stjórnendaklíku” Icelandair og veltir fyrir sér hvort ekki væri rétt á þessum tímapunkti að skipta út stjórnendum. Það blasir við hversu óábyrg og ósanngjörn þessi orð eru. Og ætti formanni VR ekki að vera annt um störf okkar sem vinnum á skrifstofum Icelandair, okkar sem höfum þegar samþykkt skert kjör en um leið lagt á okkur mikla vinnu við að bjarga félaginu? Í venjuleg árferði starfa nokkuð hundruð félagsmenn VR hjá Icelandair. Við viljum halda í þessi störf og vonum að það eigi eftir að birta til. Icelandair er komið niður á hnén og þarf síst á því að halda að forystumenn í verkalýðsfélögum starfsfólks tali jafn gáleysislega um stöðu og framtíð félagsins eins og Ragnar Þór gerir.
Ekki veit ég hvernig þessi barátta endar. Ég vona bara innilega að okkur öllum sem þykir vænt um Icelandair takist að halda merki þess á lofti og fram undan séu betri dagar.“