Morgunblaðið skýrir frá þessu. Segist blaðið hafa heimildir fyrir að sú hugmynd sé uppi að stöðva framleiðsluna í Straumsvík í tvö ár í þeirri von að álmarkaðir á heimsvísu jafni sig á þeim tíma.
Blaðið segir einnig að forsvarsmenn Rio Tinto telji að ein af forsendum áframhaldandi starfsemi sé að raforkusamningur við Landsvirkjun verði endurskoðaður. Nýr kjarasamningur við starfsfólk álversins er bundin því skilyrði að það takist að semja við Landsvirkjun.
Morgunblaðið kveðst hafa heimildir fyrir að um leið og reynt er að ná nýjum samningi við Landsvirkjun sé Rio Tinto að undirbúa málaferli gegn Landsvirkjun til að losa fyrirtækið undan stórum hluta þeirrar kaupskyldu á rafmagni sem hvílir á fyrirtækinu. Horfi fyrirtækið meðal annars til þess að Landsvirkjun hafi hugsanlega stundað vörusvik. Raforka hafi verið seld til Rio Tinto á þeim forsendum að hún væri framleidd með vatnsafli en frá 2014 hafi raforkureikningar Landsvirkjunar sýnt að orkan sé framleidd með kjarnorku- og kolavinnslu. Það er sagt skýrast af sölu svokallaðra upprunavottorða en Landsvirkjun hefur haft milljarða í tekjur af þeim á síðustu árum.