fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Dagar Lækjarbrekku líklega taldir – „Ég er búinn með dramakastið“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 26. apríl 2020 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er líklega varanlegt, að minnsta kosti í þessari mynd. Hvort ég eða einhver annar stígur inn í þetta vörumerki síðar er annað mál. En eins og staðan er núna treystum við okkur ekki til að bæta skaðann sem varð bæði af falli WOW air í fyrra og síðan þessum Covid-hryllingi núna. Þetta eru tvö risahögg og við erum ekki fjárfestar. Fórum út í þetta tveir með uppbrettar ermar og þegar svona hamfarir dynja yfir mann þá er þetta bara staðan,“ segir Ívar Þórðarson, annar eigandi hins gamalgróna og ástsæla veitingastaðar, Lækjarbrekku, en staðnum hefur nú verið lokað – að líkindum til frambúðar.

Ívar segir þó fjarri sér að vilja leika fórnarlamb þrátt fyrir þetta áfall, hann einbeitir sér að rekstri Humarhússins, sem er við hliðina á Lækjarbrekku, og þar er allt í fullum gangi.

„Við brosum bara í æðruleysinu, ég er búinn með dramakastið. Það er enginn reiður og enginn bitur,“ segir Ívar sem hefur lifað erfiða daga í bransanum undanfarið þó að hann láti engan bilbug á sér finna.

Humarhúsið er opið fjóra daga í viku, frá miðvikudegi til laugardags, og þar eins og víðar hafa heimsendingar og að sækja á staðinn sótt mjög í sig veðrið. „Heimsendingar eru eitthvað alveg nýtt fyrir Humarhúsið því þetta er veitingastaður í þannig klassa. En ef þú færð sent heim eða sækir þá er 50% afsláttur,“ segir Ívar og ljóst er að viðskiptavinir kunna vel að meta tilboðið.

„Við erum með gott pláss til uppfylla tveggja metra regluna hvort sem 20 eða 50 manns eru á staðnum og hér geta allir gengið að því vísu að reglum um hreinlæti og heilbrigði er fylgt til hins ítrasta.“ Þann 4. maí verður slakað á hópamyndum sem fer úr 20 í 50. Bæði fyrir og eftir þann tíma er gott að snæða á staðnum.

Nokkrar stjörnur þurfa að raða sér rétt saman

Varðandi örlög Lækjarbrekku þá virðast þau ráðin í nánustu framtíð en til lengdar veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér: „Við sjáum til. Kannski kem ég bara skellihlæjandi til baka og kannski ekki. Ég veit það ekki. En það þurfa nokkrar stjörnur að raða sér rétt saman til að það gangi upp. Veitingarekstur byggir á góðu samspili rekstraraðila, leigusala, birgja og að sjálfsögðu viðskiptavina. Það er erfitt að snúa við skipi sem hefur verið að sökkva síðan túristinn tók að láta sig vanta í þeim fjölda sem áður var. Eftir að ferðamenn hafa tekið yfir staðinn en hverfa síðan þá er erfitt að stýra rekstrinum í aðra átt. Við höfum verið að snúa þessu meira að Íslendingum og fá þá til að koma aftur í gömlu góðu Lækjarbrekku. En slíkt tekur tíma og þann tíma höfðum við bara ekki. En þessi þróun gekk vel þar til Covid reið yfir og við fengum frábærar viðtökur við þeim breytingum sem við gerðum.“

Lækjarbrekka hóf rekstur 10. október árið 1981 í húsi sem þá hafði nýlega verið verndað eftir mikil átök við að forða gömlum húsum á svæðinu frá niðurrifi. Allar götur síðan hefur þessi vinsæli veitingastaður verið eitt af kennileitum Reykjavíkur, en ekkert varir að eilfu.

Ívar birti eftirfarandi texta á heimasíðu staðarins:

„Því miður þurfum við á Lækjarbrekku að loka. Okkur finnst það sorglegt , erfitt og leiðinlegt að þurfa að grípa til þess og langaði að þrauka yfir þessa undarlegu tíma. Við vonum að það verði tímabundin lokun en það mun koma í ljós á næstu misserum. Okkur langar að þakka okkar góðu viðskiptavinum og frábæra starfsfólki fyrir ótrúlegan samstöðuvilja og velvild í okkar garð.“ 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“