Fregnir bárust af fjörkippi neytenda í gær eftir upplýsingafund ríkisstjórnarinnar um afléttingu samkomubanns í áföngum eftir 4. maí. Sumstaðar voru viðbrögðin órökrétt, til dæmis eru spurnir af stóraukinni aðsókn í verslanir H&M í gær, þar sem í raun ekkert breyttist, það var opið eins og áður og fjöldatakmarkanir í gildi eins og hefur verið. Dæmi voru um langar biðraðir fyrir utan verslanir H&M í gær og þurfti að hleypa inn í hollum.
Hágreiðslustofur, snyrtistofur og nuddstofur eru á meðal þeirrar starfsemi sem leyfð verður eftir 4. maí. DV lék forvitni á að vita hvernig slíkir staðir hafa brugðist við í samkomubanni og hafði samband við Beauty Bar, stóra hárgreiðlustofu og snyrtivöruverslun í Kringlunni. Þar varð fyrir svörum Ásta Bjartmars eigandi:
„Við erum með fjórar símalínur og þær voru allar rauðglóandi í gær,“ segir Ásta en raunar hefur Beauty Bar verið í miklu sambandi við viðskiptavini sína þann tíma sem samkomubannið hefur varað:
„Það er kominn langur listi af bókunum en það er líka búið að vera þannig. Margar hárgreiðslustofur skelltu í lás og hættu að svara í símann en við spóluðum í hina áttina. Við höfum verið á staðnum og svarað í síma. Ef þú sendir okkur skilaboð á Facebook-síðuna okkar þá erum við að svara þar til 12 á kvöldin.“
Ásta fer yfir fyrirkomulag þjónustunnar þegar aftur verður opnað þann 4. maí:
„Við erum í mjög stóru húsnæði, tæplega 300 fermetra, erum með 14 stóla og sem betur fer er vítt til veggja hjá okkur. Annar hver stóll verður nýttur þannig að það verða alltaf rúmlega þrír metrar á milli viðskiptavina. Það verður áfram spritt uppi við og áfram sótthreinsað og við erum núna að nálgast grímur þannig að þeir viðskiptavinir sem þess óska geta fengið grímur,“ segir Ásta sem ásamt starfsfólki sínu vinnur að því að gera allt klárt fyrir mikla törn frá og með fjórða maí.
Skemmtileg tenging við ástandið á hárgreiðslustofum er sú að mikill fjörkippur hefur orðið í sölu á ýmsum hársnyrtitækjum hjá Elko, að sögn Braga Þórs Antoníussonar markaðsstjóra. „Við tókum strax eftir aukningu í hárklippum, rakvélum og þess háttar.“
Aðspurður um hvort tilkynningin í gær og umræðan um afléttingu samkomubanns hafi haft áhrif á sölu í Elko sagðist Bragi ekki vera með það á hreinu:
„Það var stór dagur hjá okkur í gær, en þeir eru oft stórir strax eftir páska. Ég veit ekki hvort þessu olli tilkynningin eða helgidagalokunin þar á undan,“ segir Bragi en mikið hefur verið að gera hjá Elko allan tíma samkomubannsins og þá sérstaklega í vefverslun fyrirtækisins. Alls enginn samdráttur hefur verið hjá Elko en verslun færst meira yfir á vefinn þar sem hefur orðið margföld aukning.
„Þetta er bara einn dagur og bílasala vikar þannig að það tekur svo langan tíma að koma öllu í gegn,“ segir Halldóra Anna Hagalín, markaðsstjóri hjá Skoda, Audi og Heklu. Bílaumboðin upplifðu ekki neina sérstaka breytingu í gær en árið hefur verið erfitt hjá þeim. „Það er alls ekki allt slæmt,“ segir Halldóra en að hennar sögn hefur Hekla komið furðuvel út úr árinu það sem af er. „Við erum efst í sölu á einkabílum og fyrirtækjabílum. Í rauninni hefur verið aukning á sölu bíla til einstaklinga hjá okkur en töluverður samdráttur í fyrirtækjabílum og í sölu til bílaleiga,“ segir Halldóra.
„Samdráttur í bílasölu í heild það sem af er ári er 25%. Þar af hefur samdráttur í viðskiptum við bílaleigur orðið 50% sem er rosahögg,“ segir Hallóra jafnframt og er þrátt fyrir þetta bjartsýn á framtíðina, ekki síst vegna þess að Heklu hefur tekist nokkuð vel að halda sjó í gegnum þessa erfiðu tíma og á meðal annars fimm af tíu mest seldu fólksbílum landsins.