Vasaþjófanaðarfaraldur stendur nú yfir við Geysi. Leiðsögumaðurinn, Hallgrímur Eggert Vébjörnsson, fullyrðir þetta í samtali við DV. Hann var með hóp túrista hjá Geysi í dag, en einn einstaklingur í hópi hans missti 20.000 í hendur þjófa.
Svo virðist vera að þjófarnir, sem vinna nokkrir saman, biðji túrista að að taka myndir af sér á meðan hver gýs, þá sé engin athygli á veskjunum og annar þjófur lætur til skarar skríða.
Hallgrímur hafði samband við lögregluna vegna málsins, en hún tjáði honum það að þetta væri orðið nokkuð algengt og að um einskonar faraldur væri að ræða. Lögreglan sagðist reyna að fylgjast eitthvað með þessum málum, en það væri erfitt að fylgjast með öllum stundum.
Hallgrímur hefur heyrt að erlendar glæpaklíkur standi á bakvið vasaþjófnaðinn og biðlar til fólks að hafa augun opin, auk þess sem hann vill að tekið verði á málinu.