Páll segir að fanginn sem var stunginn hafi fengið aðhlynningu á heilbrigðisstofnun og að fanginn sem stakk hann hafi verið fluttur frá Kvíabryggju. Lögreglan á Vesturlandi rannsakar árásina en Páll segir að alvarlegir atburðir eins og þessir séu sjaldséðir í opnum fangelsum.
Maður, sem segist vera vistaður á Kvíabryggju, hafði samband við DV vegna málsins. Heimildarmaðurinn segir árásina hafa verið hrottalega en hann greinir einnig frá því hvers vegna árásin átti sér stað. Um helgina hafi „byrjað fyllerí“ hjá nokkrum föngum og í kjölfarið hafi fangar verið sendir í þvagprufur þar sem einhverjir féllu. Sá sem réðist á samfanga sinn hafi verið kallaður „skvíler“, hann hafi sumsé verið sakaður um að kjafta frá. Þá segir hann að um nokkrar stungur hafi verið að ræða.
Í frétt Vísis í kvöld kom fram að áverkar mannsins væru ekki taldir alvarlegir.