Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Þórunni Önnu Árnadóttur, forstjóra Neytendastofu, að stofnuninni hafi borist ábendingar um að fyrirtæki hér á landi stundi píramídasvindl en það hafi ekki leitt til ákvörðunar hjá stofnuninni. „Ef um er að ræða fyrirtæki sem er staðsett annars staðar í Evrópu þá höfum við skoðað þau mál í samstarfi við yfirvöld í viðkomandi landi,“ sagði hún einnig.
Eins og fyrr segir hefur BBC lýst Crowd1 sem píramídasvindli sem einkum beinist að Afríkubúum. Hafa nokkur Afríkuríki bannað starfsemina eða varað við henni.
Blaðið segir að eitt þekktasta píramídasvindl málið á heimsvísu sé Herbalife sem samdi við bandarísku alríkisstjórnina fyrir fjórum árum um að breyta viðskiptamódeli sínu. Síðan þá hefur fyrirtækið tvívegis þurft að greiða háar fjárhæðir, meðal annars vegna mútumáls í Kína.
Fleiri álíka mál hafa teygt sig hingað til lands, til dæmis OneCoin og Young Living. Píramídasvindl er ólöglegt í Evrópu en það er skilgreiningaratriði hvað fellur undir ramma laganna. Hér á landi er það Neytendastofa sem hefur eftirlit með að lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sé fylgt og Evrópureglugerð um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.