Drög að breyttri reglugerð um flugeldasölu liggja í samráðsgátt dómsmálaráðuneytisins. Nýja reglugerðin tekur ekki gildi á þessu ári en hefur meðbyr og gæti orðið að veruleika fyrir lok árs 2021. Í gildi er reglugerð um flugeldasölu frá árinu 2017 og samkvæmt henni má selja flugelda á eftirfarandi tímabili:
Frá 28. desember út 6. janúar, að báðum meðtöldum.
Þessi tími mun takmarkast mjög samkvæmt nýju reglugerðinni, en um er að ræða þrjá tímaglugga:
Fyrsti gluggi er frá kl. 16 á gamlársdag til kl. 2:00 á nýársnótt. Annar gluggi opnast kl. 16 á nýársdag og er opinn til kl. 22 á nýarsdagskvöld. Þriðji glugginn opnast síðan á þrettándanum, þ.e. 6. janúar, frá kl. 16 til 22.
Veðurspá gerir ráð fyrir mjög hagstæðum skilyrðum til flugeldaskota um áramótin því spáð er kyrru veðri. En við slík skilyrði verður mun meiri mengun af flugeldum en til dæmis í rigningu og roki. Áhyggjufullur borgari sendi DV eftirfarandi orðsendingu um kvíðvænleg áramót fyrir marga vegna mikillar flugeldanotkunar:
„Gleðilega hátíð. Ég hef áhyggjur af að engin umfjöllun sé um mengun frá flugeldum um næstu áramót. Veðurspá er um blankalogn eins og hefur verið síðustu 3 ár. Það þýðir skaðræðislega mengun sem í venjulegu árferði veldur því að fjöldi fólks þarf að leita til heilbrigðisþjónustunnar. Í ár er fjöldi Íslendinga búinn að fá Covid-19 og er með skert lungu. Þannig að það stefnir í óefni. Þar sem við búum í lægð safnast mengun hér og fer seint og við þurfum að sitja með grímur innanhúss þrátt fyrir að við séum með alla glugga lokaða. Það þarf að fjalla um þetta.“
DV ræddi við Fríðu Rún Þórðardóttur, formann Asthma- og ofnæmisfélags Íslands. Fríða gerir sér grein fyrir því að margar hliðar eru á þessu máli. „Við höfum svo sem alltaf áhyggjur af þessu, þetta er í rauninni alltaf sama vandamálið sem við erum að stríða við. Það er hins vegar jákvætt í stöðunni að það verða ekki áramótabrennur eftir því sem mér hefur skilist. Aflagning þeirra hefur mjög góð áhrif á okkar fólk.“ Segir Fríða að brennurnar valdi stórum hluta af þeirri mengun sem verður í kringum áramótafögnuðinn og þær skapi líka slysahættu, rétt eins og flugeldarnir.
Ljóst er að Fríða og hennar samtök gera ekki kröfur um bann við flugeldanotkun þó að óneitanlega væri það besta staðan fyrir asthma- og ofnæmissjúklinga: „Maður hugsar auðvitað til björgunarsveitanna sem eru í nauðsynlegri fjáröflun. Og þetta er fjáröflun fyrir íþróttafélög líka. Ég myndi hins vegar helst vilja að einkaaðilum væri ekki heimilt að selja, þannig að þetta sé ekki gróðastarfsemi fyrir aðila sem geta bara unnið við eitthvað annað.“
Fríða telur að erfitt myndi verða að afnema flugeldanotkun almennings: „Þessi menning, að skjóta upp flugeldum, er rótgróin og erfitt að taka þetta frá fólki. Það hafa líka verið vangaveltur um að ekki verði skotið upp í íbúðahverfum heldur á sérstökum svæðum sem eru fjær, það myndi eflaust minnka mengun. En það eru gríðarlega mörg sjónarmið í þessu, ég geri mér grein fyrir því. Það eru margir hagsmunir sem rekast á en ef við myndum eingöngu ákveða þetta út frá heilsu lungnanna í viðkvæmum einstaklingum og börnum, þá myndum við leggja þetta af.“
Fríða segir að asthma- og ofnæmissjúklingar gæti sín á þessum árstíma: „Okkar fólk er farið að læra inn á þetta og heldur sig innandyra. Grímunotkun núna er líka til góðs og grímurnar hafa einhver stöðvandi áhrif á sumar af þeim ögnum sem leynast í þessari mengun.“
Fríða bendir enn fremur á að á meðan flugeldanotkun skapi vandamál í nokkra daga þá séu önnur mengunarvandamál til staðar alla hina daga ársins. „Það er hægt að stýra öllum hinum dögunum með betri ferðamáta og borgin má vera duglegri að þrífa götur og rykbinda. Þetta eru mun stærri póstar en gamlárskvöld út af fyrir sig. Þannig að það eru endalaust margar hliðar á þessum málum.“