Birgir Svan Símonarson skáld og kennari er látinn, 69 ára að aldri. Hann lést á jóladag, þann 25. desember, á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Vísir greindi fyrst frá.
Birgir barðist við krabbamein í meira en áratug þar til kallið kom á jóladag. Meðal eftirlifandi aðstandenda er sonur hans, Símon Birgisson, þekktur blaðamaður og rithöfundur. Símon hefur lofað hugulsemi og kærleik líknardeildarinnar í skrifum um föður sinn.
Birgir var um tíma mjög þekkt ljóðskáld en hann var í skáldahópnum Listaskáldin vondu sem sló í gegn á áttunda áratugnum. Meðal annarra meðlima hópsins voru Sigurður Pálsson, Megas, Steinunn Sigurðardóttir, Pétur Gunnarsson og Þórarinn Eldjárn.
Birgir gaf út yfir 20 ljóðabækur, auk barnabóka, þýðinga og smásagna. Hann var orðheppinn og hnyttinn höfundur með ísmeygileg tök á tungumálinu og kraumandi þjóðfélagsádeila einkenndi sum verka hans. Skáldið og heimspekingurinn Stefán Snævarr ritaði grein um skáldskap Birgis á Stundina í vor og sagði meðal annars:
„Birgir Svan Símonarson er huldumaðurinn í íslenskri ljóðlist. Hann hefur gefið allar sínar bækur út sjálfur, þær eru vart til sölu í bókabúðum og hafa fæstar verið sendar til ritdóma.
En huldumönnum í þjóðsögunum er oft lýst sem hæfileikamönnum, hið sama gildir um Birgi Svan sem að minni hyggju er eitt albesta skáld minnar kynslóðar.
Fyrsta bók hans kom út árið 1975 og fjallaði um veruleika verbúðanna og frystihúsanna. Sama stef og svipuð er að finna í næstu bókum hans. En á níunda tug aldarinnar breytir hann um stíl og viðfangsefni, ljóðin verða persónulegri, ljóðrænni og draumkenndari, mun síður pólitísk og hversdagsleg.“
DV sendir aðstandendum og vinum Birgis Svans Símonarsonar innilegar samúðarkveðjur.