Morgunblaðið skýrir frá þessu og hefur eftir Júlíu Rós Atladóttur, framkvæmdastjóra Distica, að þetta sé án efa stærsta verkefnið sem fyrirtækið hefur komið að. Bóluefninu er haldið í 80 gráðu frosti með þurrís. „Þegar efnið kemur til Distica þá getum við bæði bætt þurrís á flutningsumbúðirnar en einnig erum við með frysti sem heldur efninu í mínus 80 gráðum,“ ef haft eftir Júlíu.
Á leiðinni fylgjast síritar stöðugt með hitastigi bóluefnisins og ekki er hægt að hefja dreifingu bóluefnisins fyrr en búið er að fara yfir flutningsferlið og hitastigið í því ferli. Það er Pfizer sem gerir lokamat á framkvæmd flutningsins. Þegar það mat liggur fyrir er hægt að keyra helmingi efnisins út en hinn helmingurinn verður geymdur fyrir síðari bólusetningu. Bólusetning hefst á morgun.
Meðal þeirra fyrstu til að verða bólusettir eru um 700 starfsmenn á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri sem hafa einkum sinnt COVID-19-sjúklingum. Starfsfólk sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva víða um land verður einnig meðal þeirra fyrstu til að verða bólusett.