Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt var tilkynnt til lögreglu um innbrot í geymslur fjölbýlishúss í hverfi 105 í Reykjavík. Maður og kona voru handtekin á vettvangi, grunuð um innbrot og þjófnað. Voru þau bæði vistuð fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.
Þetta kemur fram í Dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir einnig frá innbroti í veitingahús í sama hverfi, en löngu fyrr, eða um kl. 18 í gær. Spennt var upp útihurð og fór öryggiskerfi í gang er viðkomandi fór inn í húsið. Enginn var á vettvangi þegar lögregla kom og er ekki vitað hvort einhverju var stolið.
Miðað við færslur í dagbókinni var nokkuð um ölvunarakstur og akstur án réttinda í gærkvöld og nótt en annars virðist nóttin hafa verið róleg eins og vænta má á aðfaranótt annars í jólum.