Afar margt er óljóst varðandi skotárás sem átti sér stað í Berlín í nótt, í hverfinu Kreuzberg. Samkvæmt Bild eru fjórir þungt haldnir á sjúkrahúsi eftir árásina.
Árásin átti sér stað skömmu fyrir kl. 3 í nótt að íslenskum tíma.
Fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar í Berlín segir stöðuna óskýra. Ekki er hægt að staðfesta fjölda slasaðra og enn hefur ekkert komið fram sem bendir til hryðjuverkaárásar.
Lögregla lét loka hverfinu af um tíma í nótt þar sem ekki var hægt að útiloka frekari skotárásir. Fjórir munu hafa legið særðir í Stresemannstrasse í Kreuzberg. Í nágrenninu fann lögreglan mikið magn skothylkja.