Alvarlegir ofbeldisglæpir eru sem betur fer ekki algengir á Íslandi, og þó að það sé lítil huggun fyrir brotaþolana sem þá þó upplifa, eru handahófskennd ofbeldisverk enn fátíðari. Vegna tengsla milli brotaþola og geranda í slíkum málum eru þau líka oftast nokkuð auðleyst. Þar leikur vafalaust einnig hlutverk sú mikla og góða þekking sem íslensk lögregla hefur úr að spila og smæð íslensks samfélags.
Þó eru þess dæmi að mál koma upp hér á landi sem aldrei eru leyst. Morð, innbrot, bankarán. DV skoðar hér nokkur af helstu óleystu morðmálum Íslandssögunnar.
Á nöprum janúarmorgni árið 1968 voru tveir Reykvíkingar á ferli um Laugalæk er þeir sáu kyrrstæðan leigubíl. Bifreiðin var í gangi sem vakti athygli þeirra enda bifreiðin að öðru leyti hreyfingarlaus. Vegfarendurnir sáu að ekki væri allt með felldu. Það reyndist rétt, því bak við stýrið sat leigubílstjórinn Gunnar Tryggvason. Gunnar hafði verið skotinn í höfuðið og var látinn í bíl sínum. Gjaldmælir leigubílsins var enn í gangi og gat lögregla því áætlað dánartíma í kringum sex að morgni. Rétt rúmum klukkutíma áður en lík Gunnars fannst.
Rannsókn lögreglu skilaði í fyrstu afar litlu. Athygli rannsakanda beindist einna helst að skotvopninu. Skothylkið úr vopninu fannst á vettvangi, en byssan ekki þrátt fyrir mikla leit. Grunur um að vopninu hefði verið stolið af heimili fyrrverandi hótelstjóra Hótel Borgar vakti enn fremur athygli og óhug á þeim tíma. Þegar ljóst varð að rannsóknin var ekki að skila árangri bauð Hreyfill, vinnustaður mannsins, eitt hundrað þúsund krónur í skiptum fyrir upplýsingar sem gætu komið lögreglu á sporið. Hundrað þúsund krónur þóttu mjög vegleg verðlaun fyrir rúmri hálfri öld og fáa munaði ekki um slíka búbót. Engu að síður breytti það engu.
Það var ekki fyrr en ári síðar að byssan loks fannst á gólfi leigubíls sem keyptur hafði verið á skuldauppboði. Þegar staðfest var að byssan væri í raun sú sem notuð var við morðið á Gunnari beindist athygli lögreglu strax að fyrrverandi eiganda leigubílsins. Við húsleit á heimili mannsins fundust tvær byssukúlur í byssuna og á lyklakippu mannsins fundust lyklar að heimili eiganda byssunnar, hótelstjórans fyrrverandi. Framburður mannsins tók enn fremur talsverðum breytingum eftir því sem leið á ellefu mánaða langa gæsluvarðhaldsvist hans. Síðasta saga hans var sú að hann hefði verið í sumarbústað með hótelstjóranum sem hefði fengið hann til að gera við sjónvarpið sitt. Við það tækifæri hefði hann stolið byssunni.
Að endingu var maðurinn sýknaður í klofnum héraðsdómi þar sem einn dómari vildi sakfella en aðrir ekki. Hæstiréttur klofnaði svo aftur þegar hann staðfesti dóm héraðsdóms. Ef kolleginn á Hreyfli drap Gunnar ekki, þá er ljóst að morðinginn gengur enn laus. Lögregla opnaði rannsóknina aftur árið 2018 í kjölfar nýrra upplýsinga frá Sigursteini Mássyni sem komu fram í þætti hans, Sönn íslensk sakamál. Enginn hefur enn verið sakfelldur fyrir morðið á Gunnari.
Tvö nokkuð keimlík rán skóku Reykjavík árið 1995. Í því fyrra var ráðist að tveimur konum er þær voru á leið með uppgjörið úr Skeljungi í bankann. Þrír menn voru að verki. Síðar það sama ár réðust þrír vopnaðir menn inn í Búnaðarbankann á Vesturgötu og höfðu þeir nokkuð háa fjárhæð upp úr krafsinu. Lengi var talið að málin væru tengd, enda keimlík. Árið 2003 ljóstraði þó fyrrverandi kærasta eins Skeljungsræningjans upp um gamla kærastann sinn og við rannsókn á því kom á daginn að málin væru ótengd. Kærasti konunnar var sakfelldur fyrir Skeljungsránið og telst það upplýst. Ræningjar Búnaðarbankaútibúsins á Vesturgötu ganga þó enn lausir.
Vafalaust eitt bíræfnasta bankarán sögunnar átti sér stað á Borgarfirði eystri verslunarmannahelgina árið 1991. Sparkaði maður þá hurð upp sem aðskildi fiskvinnslu og útibú Landsbankans þar í bæ. Að því loknu gaf þjófurinn sér góðan tíma í að brjóta upp 200 kílóa peningaskáp og allan tímann fór fram fjölmenn skemmtun í næsta húsi. Ránið skók litla og þéttofna samfélagið á Borgarfirði eystri, en er enn í dag óupplýst.
Í febrúar árið 1979 ruddist ræningi inn í afgreiðslu Pósts og síma í Sandgerði og krafðist þess að fá peninga afhenta. Hafði ræninginn hálfa milljón upp úr krafsinu. Eina vísbendingin sem ræninginn virðist hafa skilið eftir var megn Old Spice-lykt sem afgreiðslukonan í afgreiðslunni sagði að hafði legið af manninum. Um ári síðar virðist þessi sami maður, Old Spice-ræninginn sjálfur, hafa endurtekið leikinn. Rændi hann þá aftur þessa sömu afgreiðslu og aftur hafði hann um hálfa milljón upp úr krafsinu. Old Spice-anganin var enn fremur, aftur, eina vísbendingin. Grunur lögreglu á þessum tíma beindist að ákveðnum manni en aðild hans gat lögregla aldrei sannað. Old Spice-ránin svokölluðu eru því í dag enn óupplýst.
Annan dag jóla árið 1945 fann ungur maður í Reykjavík illa leikið lík Kristjáns Guðjónssonar í Kveldúlfsportinu, nálægt þar sem Seðlabankinn er í dag. Kristján hafði verið laminn ítrekað með barefli í höfuðið og lík hans skilið eftir þar sem það lá. Nokkur fjöldi breskra og bandarískra hermanna var enn í Reykjavík þegar morðið átti sér stað, þó að seinna stríði hafi þarna verið lokið. Í kjölfar lýsinga vitnis á manni „dökkum yfirlitum“ sem vitnið hafði séð á ferli á svæðinu í nágrenni Kveldúlfsportsins þetta kvöld beindist grunur lögreglu að þeim hermönnum sem svartir voru á hörund.
Rannsókn lögreglu skilaði þó afar litlu, og er morðið á Kristjáni Guðjónssyni elsta óupplýsta morðmál Íslands.