Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur nú opnað sig um fréttir gærdagsins af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. Katrín segir í samtali við fréttastofu Vísis að Bjarni sé búinn að skaða traustið á milli flokkanna. Þá segir hún einnig að hann sé búinn að gera samstarfið erfiðara.
Ekki er þó víst að ríkisstjórnin springi og fari út með hvelli í tilefni áramótanna sem eru á næsta leiti. Katrín telur nefnilega að samstaðan innan ríkisstjórnarinnar sé góð og að miklum árangri hafi verið náð. „Við munum halda því ótrauð áfram,“ segir Katrín í samtali við Vísi.
„Ég ræddi við fjármálaráðherra í gær og tjáði honum mína óánægju með þetta,“ segir Katrín. Því næst virðist vera sem hún kenni rekstraraðilum Ásmundarsals um málið. „Það lítur auðvitað þannig út og er greinilegt að rekstraraðilar þessar salar voru ekki að fylgja sóttvarnareglum og voru ekki að uppfylla þær reglur sem eru í gildi.“
Í lok fréttar Vísis er birt samtalið milli Katrínar og blaðamannsins. Blaðamaðurinn segir við Katrínu að margir hafi kallað eftir afsögn Bjarna. „Ég geri ekki kröfu um afsögn,“ segir Katrín þá og bætir við að hún hafi sagt við Bjarna í gær hvað henni þætti þetta leiðinlegt. „Ég fór yfir það með honum að þetta ylli mér miklum vonbrigðum,“ segir hún.
Að lokum spyr blaðamaður hvort atvikið sé afsakanlegt. „Já, ég held að þetta sé afsakanlegt,“ segir Katrín þá.