Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Kári hafi nýtt tengsl sín við ýmsa stjórnendur hjá Pfizer. Hann skipulagði meðal annars fund með fyrirtækinu í fyrradag en auk hans sátu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og stjórnendur hjá Pfizer fundinn. Í kjölfar hans ræddi Kári við Pfizer.
Morgunblaðið hefur eftir honum að verið sé að athuga hvort nægilega margir skammtar af bóluefninu séu til hjá Pfizer til að hægt sé að mynda hjarðónæmi hér á landi. Ef úr þessu verður er um tilraunaverkefni að ræða þar sem kannað verður hvort hægt er að kveða faraldurinn niður hjá heilli þjóð.
Það var yfirmaður bóluefnateymis Pfizer sem kom með tillögu að þessari rannsókn. En enn liggur ekki fyrir hvort nægilega mikið sé til af bóluefni til að hægt sé að gera þetta. „Það er verið að kanna hvort til sé bóluefni og það hefur enn ekki verið haft samband. Ég get ekki lofað nokkrum sköpuðum hlut þótt ég sé að reyna, en ég væri ekki að þessu nema ég héldi að þetta væri möguleiki,“ hefur Morgunblaðið eftir Kára.