Um klukkan 19 í gærkvöldi endaði bíll út af veginum og ofan í Elliðaám við Rafstöðvarveg. Ekki urðu slys á fólki. Ökumaðurinn var handtekinn en hann er grunaður um ölvun við akstur. Hann var vistaður í fangageymslu. Dráttarbifreið var fengin til að fjarlægja bifreiðina úr ánni.
Þessu til viðbótar voru sjö ökumenn handteknir í gærkvöldi og nótt, grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna.
Maður var staðinn að því að stela bókum úr verslun við Fiskislóð í gærkvöldi. Hann játaði brotið og skilaði bókunum sem voru óskemmdar. Kona var handtekin í Bústaðahverfi í nótt, grunuð um þjófnað úr verslun. Hún var í annarlegu ástandi og var vistuð í fangageymslu.
Maður var handtekinn á veitingahúsi á Laugavegi í gærkvöldi, grunaður um brot á áfengislögum, líkamsárás, hótanir, að fara ekki að fyrirmælum lögreglunnar og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu.