Spænskur ríkisborgari, Jose Miguel Lopez Daza, 62 ára gamall, var föstudaginn 13. desember sakfelldur fyrir Héraðsdómi Reykjaness, fyrir að hafa smyglað tæplega hálfu kílói af kókaíni til landsins. Jose finnst hvergi og hefur dómurinn gegn honum verið birtur í Lögbirtingablaðinu.
Jose kom til landsins þann 24. júlí í sumar. Við skoðun tollvarða kom í ljós að hann hafði falið kókaín í 51 hylki innvortis. Kókaínið var ætlað til söludreifingar í ágóðaskyni, að því er sagði í ákæru.
Hvorki tókst að birta Jose ákæru né dóm héraðsdóms og ekki er vitað hvar hann heldur sig.
Hinn ákærði var dæmdur í sex mánaða fangelsi en frá þeim dómi dregst einn mánuður sem hann sat í gæsluvarðhaldi. Enn fremur hefur hann verið dæmdur til að greiða rúmlega eina og hálfa milljón í sakarkostnað.