„Það varð að samkomulagi milli Gísla Haukssonar og flokksins í byrjun síðustu viku að hann hætti sem formaður fjármálaráðs,” segir Ingvar P. Guðbjörnsson upplýsingafulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skriflegu svari til DV.
Fyrirspurnin var send vegna fréttar sem Fréttablaðið birti í morgun þess efnis að Gísli Hauksson annar stofnandi Gamma Capital og innmúraður sjálfstæðismaður hefði verið ákærður fyrir gróft heimilisofbeldi. Blaðið segist hafa heimildir fyrir að Gísla sé gefið að sök að hafa tekið konuna kyrkingartaki og þrengt hættulega fast og lengi að hálsi hennar. Rannsókn málsins er sögð vera á frumstigi.
Þar kom fram að Gísli gengdi trúnaðarstöfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hann hefur verið viðloðandi starf flokksins um árabil, bæði hefur hann setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og starfað sem formaður fjármálaráðs. Í kjölfarið var fjölmiðlum send tilkynning þess efnis að Gísli starfaði ekki lengur fyrir flokkinn.
Ingvar P. Guðbjörnsson ítrekar það í skriflegu svari sínu að Gísli starfi ekki með neinum hætti fyrir flokkinn í dag. Ljóst er að Sjálfstæðisflokknum hefur gengið betur að ná í fyrrum kollega sinn en blaðamönnum sem hafa ítrekað reynt að ná í Gísla síðastliðna viku án árangurs.