35 ára gamall maður hefur verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot gegn lækni auk þess að hóta honum lífláti. Sami maður hefur áður verið sakfelldur fyrir ofbeldi og hótanir í garð heilbrigðisstarfsfólks og á langan sakaferil að baki.
Hann var ákærður fyrir að hafa þann 26. ágúst árið 2019 veist með hótunum að lækni inni í og fyrir utan Heilbrigðisstofnun Austurlands, Búðareyri 8 á Reyðarfirði. Hann sparkaði ítrekað í fótleggi læknisins og hótaði honum lífláti. Einnig braut hann veggmynd inni í byggingunni og kastaði stól í hurð læknastofunnar og gangavegg þannig að stóllinn brotnaði og hurðin og veggurinn skemmdust. Einnig skemmdi hann rimlagluggatjöld.
Læknirinn hlaut fleiður og grunn sár á hnjám og sköflungum beggja fóta, mar og blóðgúl á vinstra hné, stóran marblett á hægri sköflungi og fann auk þess til eymsla í öxlum, til kvíðaeinkenna og andlegra óþæginda.
Maðurinn neitaði sök í málinu. Krafðist lögmaður hans að hann yrði sýknaður en til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar.
Þennan dag, mánudaginn 26. ágúst 2019, barst lögreglunni á Austurlandi tilkynning um að óður maður léki lausum hala á heilsugæslustöðinni á Reyðarfirði og hefði verið að hóta starfsfólki og valda eignaspjöllum. Hraðaði lögregla sér á vettvang og árásamaðurinn var handtekinn á staðnum. Segir í lögregluskýrslu að hann hafi verið í annarlegu ástandi við handtökuna.
Maðurinn neitaði því að hafa ráðist með ofbeldi að lækninum. Hann var ósáttur við lækninn vegna þess að hann hefði tekið af honum tiltekin verkjalyf og neitað að láta honum í té vottorð vegna ökuleyfisumsóknar. Viðurkenndi að hafa látið illa inni í byggingunni en neitaði því að hafa ráðist á lækninn og beitt hann ofbeldi.
Framburður vitna, þar á meðal læknisins, og áverkavottorð, voru ákærða mjög í óhag. Fram kom fyrir dómnum að hann hafði hótað lækninum á Litla-Hrauni er læknirinn starfaði þar sem fangelsislæknir og maðurinn var fangi þar. Læknirinn sagðist aldrei á ferli sínum hafa fengið viðlíka lífslátshótanir og hefði hann þó starfað sem fangelsislæknir í tíu ár. Var maðurinn einnig ákærður fyrir þessar hótanir.
Hann var fundinn sekur um ákæruefnin og dæmdur í fimm mánaða fangelsi. Hann skal einnig greiða 2/3 hluta sakarkostnaðar, sem eru rúmlega 469 þúsund krónur, en 1/3 greiðist úr ríkissjóði.