fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Fréttir

Kári talar hreint út: „Ég held að við höfum ekki staðið okkur sérstaklega vel í að útvega bóluefni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 21. desember 2020 14:00

Mynd: Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að við höfum ekki staðið okkur sérstaklega vel í að útvega bóluefni. Ég held við höfum reitt okkur dálítið mikið á samflot með öðrum. Þetta er harður heimur sem við búum í. Það varð alveg ljóst í upphafi þessa faraldar að þegar á reynir þá er þarna bara hver fyrir sig og enginn fyrir aðra. Sem dæmi um það er þegar Evrópusambandið bannaði að hlífðarbúnaður yrði fluttur út úr Evrópusambandinu, sem var mjög ljótt, sérstaklega vegna þess að það þýddi að ekki mátti flytja hlífðarbúnað til vanþróuðu landanna,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, um stöðuna sem er komin upp varðandi útvegun bóluefnis gegn COVID-19 og horfur varðandi bólusetningu þjóðarinnar á næsta ári, en margt bendir til að henni verði ekki lokið fyrr en í árslok.

„Ég held að það hafi verið einfeldningsháttur að ætla að reiða sig á Evrópusambandið og við séum að borga prísinn fyrir það að hafa ekki farið að kanna þetta miklu, miklu fyrr,“ segir Kári enn fremur.

DV spurði Kára hvort hægt væri að gera eitthvað núna til að breyta þessum horfum og flýta fyrir komu nægilegs magns bóluefnis. „Ég hef ekki hugmynd um það. Mér skilst að búið sé að ráðstafa öllu sem Pfizer og Moderna geta búið til á fyrri hluta næsta árs nú þegar, þannig að ég held að ekki sé um auðugan garð að gresja þegar kemur að því að ná í bóluefni á fyrri hluta ársins. En hver veit?“

Getur þú gert eitthvað?

„Þetta er ekki á mínu borði en ég er alveg viss um að það reyna allir allt það sem þeir geta.“

Við spyrjum Kára hvort einkaaðilar hér á landi hafi ef til vill sambönd sem geti greitt fyrir komu bóluefnis. „Það held ég að sé ekki líklegt, sambönd Íslendinga við stóru lyfjafyrirtækin eru ekki mörg né upp á marga fiska. Við sjáum bara hvað setur.“

Íslendingar þurfa ekki að kvarta

„Við erum á prýðilegum stað. Ef þú horfir til þess sem er að gerast um alla Evrópu þá stöndum við okkur býsna vel. Þó að ég hafi á köflum verið að gagnrýna yfirvöld fyrir að ganga ekki nægilega hart fram í sóttvörnum þá höfum við staðið okkur nægilega vel til þess að við stöndum miklu betur að vígi en nokkur önnur þjóð, eins og stendur. Held að það sé engin ástæða til að vorkenna okkur,“ segir Kári en hann telur að þörfin fyrir bóluefni sé ef til vill brýnari annars staðar.

„Af því okkur hefur gengið vel að halda faraldrinum í skefjum þá má leiða rök að því að bóluefnaþörfin hér sé minni en víða annars staðar. Ef þú leyfir þér að hugsa um samfélag sem nær yfir allan þennan heim þá má kannski leiða að því rök að við ættum að haga okkur eins og góðir og heiðvirðir borgarar og ekki ganga hart fram í að ná í bóluefni. Engu að síður get ég lofað þér því að ef ég sé einhvers staðar möguleika á að hafa áhrif á öflun bóluefnis þá mun ég gera það, enda er ég svoddan óþverri í eðli mínu.“

Kári segir enn fremur að líklega hafi ekki verið skynsamlega farið að í þessu verkefni í byrjun: „Það hefði verið skynsamlegra að flytja þetta verkefni úr höndum bjúrókrata í hendur þeirra sem eiga að stjórna landinu miklu fyrr en þetta.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja