„Ég er bara sjálfkrafa í sóttkví af því það vill enginn vera nálægt mér. Það hættir enginn á það að fara í sóttkví korter fyrir jól,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði, í stuttu spjalli við DV. Bryndís lenti í óheppilegu atviki í morgun. Hún hlúði að fólki sem lenti í bílslysi en síðan kom á daginn að fólkið átti að vera í sóttkví, það hafði nýlokið fyrri sýnatöku á landamærum.
Athygli okkar á þessu atviki vakti frétt á vef Mannlífs en Bryndís sagði söguna í morgun í opinni Facebook-færslu:
„Takk fyrir aðskildar akreiknar. Í morgun rann voldugur jeppi til á akreininni á móti mér og skipti engum togum að hann kom á móti mér í loftköstum og stöðvaðist loks milli akreina, á hliðinni. Í bílnum var ungur maður með móður sína og ömmu sem er 83 ára gömul. Sem betur fer virðist þau ekki hafa slasast nema önnur konan var með slæmsku í öxl, en auðvitað í miklu sjokki, þær þurftu að skríða út úr bílnum í gegn um loftlúguna. Ég tók þær inni í bílinn minn meðan við biðum eftir hjálp og hlúði að þeim eftir bestu getu, bölvaði því að hafa alveg nýlega fjarlægt teppi sem ég er oftast með í bílnum en breiddi úlpuna mína yfir þær. Þetta fór allt ótrúlega vel miðað við loftköstin og velturnar á bílnum. EN, síðan kom í ljós að þau áttu öll að vera í sóttkví ! nýbúin með fyrra test úr landamæraskimun. Nú situr því litla ég, eins og holdsveik því enginn vill koma nálægt mér, flutningur í húsið mitt sem átti að vera í dag frestast eitthvað og jólin jafnvel í uppnámi. Ég væri hins vegar örugglega dauð ef ekki væri fyrir aðskildar akreinar.“
Bryndís býr í Hveragerði þar sem hún er uppalin en er að fara að flytja í hús í Ölfusi. Flutningurinn átti að vera í dag en hann dregst vegna þessa óheppilega atviks.
Því skal haldið til haga að Bryndís vildi sem minnst ræða um þetta mál við DV en lagðist ekki gegn því að greint yrði frá því. Hún vildi ekki svara því til hvort ferðalangarnir hafi verið útlendingar eða Íslendingar. „Þetta var bara fólk sem var mjög óheppið,“ segir hún.
Hún segir skimun fyrir sig vera marklausa á þessum tímapunkti: „Það þýðir ekkert fyrir mig að fara í skimun því það tekur einhverja daga að verða markvækt. Ég þarf bara að bíða eftir að þau fari í seinni skimun. Ef þau eru í lagi þá er ég í lagi. Auðvitað á fólk í sóttkví ekki að vera í bíltúrum.“
Bryndís bindur vonir við að fólkið reynist ósmitað við seinni sýnatöku og huggar sig við að það sé langlíklegasti möguleikinn í stöðunni. Eftir það getur hún haldið áfram með líf sitt eins og ekkert hafi í skorist.
https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=10226016018132981&id=1411836246