Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis í dag eftir að togari fékk tundurskeyti í veiðarfæri skipsins. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði eftir skipið færi þegar í stað til hafnar í Sandgerði og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru sendir á staðinn. Þegar togarinn var kominn til hafnar var skipið rýmt og sprengjusérfræðingarnir undirbjuggu flutning tundurskeytisins frá borði með sérstökum flothólkum og að lokum var duflið híft í sjóinn og dregið með slöngubát séraðgerðasveitar hálfan annan kílómetra frá höfninni.
Um níuleytið í kvöld var duflið sprengt af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar. Talið er að um 300 kíló af sprengiefni séu í duflinu og því líklegt að íbúar í Sandgerði hafi fundið fyrir sprengingunni.
Afar sjaldgæft er að svo öflug tundurskeyti komi um borð í íslensk fiskiskip. Landhelgisgæslan hefur kallað út viðvörun á rás 16 þar sem bátar eru beðnir um að halda 2 sjómílna fjarlægð og halda sig frá innsiglingunni í Sandgerðishöfn.