Tveir þýskir karlmenn á fertugsaldri hafa verið dæmdir í fjögurra og hálfs og fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga 19 ára íslenskri stúlku á grísku eyjunni Krít sumarið 2019. RÚV greinir frá þessu og eftir eftir frétt The Sun.
Í frétt The Sun segir að stúlkan hafi verið á skólaferðalagi. Stúlkan hafi rætt við mennina tvo á bar en þeir séu 39 og 35 ára. Þeir eltu hana er hún yfirgaf barinn og drógu hana inn í húsasund á leiðinni þar sem þeir nauðguðu henni.
Sagt er að íslenska stúlkan hafi borið vitni fyrir réttinum en hún hafi komið til Grikklands með móður sinni.
DV greindi frá málinu fyrr á þessu ári. „Stúlkan gekkst undir læknisskoðun á sjúkrahúsi og kemur fram að læknir hafi meðal annars fundið smápeninga og peningaseðil í leggöngum hennar. Þá kemur fram að erfitt hafi reynst að finna lífsýni á líkama stúlkunnar. Ekkert sæði fannst við skoðunina en að sögn stúlkunnar notuðu árásarmennirnir smokk,“ segir þar meðal annars. Ennfremur:
„Við skýrslutöku sagði stúlkan að mennirnir hefðu skilið hana eftir og hún hefði ekki haft hugmynd um hvar hún var. „Ég var ekki með úr. Ég var með símann minn á mér en það var slökkt á honum af því að hann var batteríslaus Ég var einhvers staðar úti á víðavangi, ég var að reyna að finna hótelið en ég fann það ekki.“
Þá tjáði stúlkan lögreglu að hún hefði farið inn á annað hótel í grenndinni og þar hefði hún komist að því að aðskotahlutir hefðu verið skildir eftir í leggöngum hennar. Sagðist hún hafa verið kvalin. Starfsmenn hótelsins hefðu hringt á leigubíl fyrir hana sem síðan flutti hana á sjúkrahús. Starfsfólk sjúkrahússins hefði í kjölfarið haft samband við hótelið þar sem stúlkan dvaldi.“
Samkvæmt frétt The Sun neituðu mennirnir fyrir rétti að hafa hitt stúlkuna áður.