Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands lýsa yfir óvissustigi almannavarna á Seyðisfirði eftir að tvær aurskriður féllu úr Botnum, annars vegar niður í Botnahlíð og hins vegar á Austurveg. Önnur skriðan féll á hús en samkvæmt fyrstu upplýsingum eru skemmdir sagðar óverulegar. Þá hafa engar upplýsingar borist um slys á fólki.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavörnum. Hefur verið tekin ákvörðun um að rýma hús í bænum, en um þetta segir í tilkynningunni:
„Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð á svæðinu. Tekin hefur verið ákvörðun um að rýma hluta af svæði svæði C á Seyðisfirði. Rýma þarf eða vara íbúa við að hafast ekki við fjallsmegin í húsum á C-svæði undir Botnum frá Dagmálalæk að Búðará. Einnig B- og C-svæði ofan Gamla Austurvegar, og Austurveg 42, Hafnargata 18b til 38a, ofan götunnar. Sleppa má Botnahlíð 9, 11 og 13. Rauði kross Íslands hefur opnað fjöldahjálparstöð í Herðubreið á Seyðisfirði.
Jafnframt er ástæða til þess að vara umsjónarmenn í SR-Mjöli við skriðuhættu og óskað eftir að starfsfólk og aðrir íbúar séu upplýst um hættu a svæðinu.
Skriðuhætta hefur verið á Austurlandi vegna mikilla rigninga undanfarna daga. Jörð er orðin vatnsmettuð eftir rigningu, snjóbráð og hlýinda síðustu daga.“
Meðfylgjandi er mynd af aurskriðunni sem féll.