Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að núverandi eigandi rekstrarfélags Domino‘s sé breska fyrirtækið Domino‘s Pizza Group en það keypti reksturinn í tvennu lagi 2016 og 2017 fyrir um 8,4 milljarða króna.
Reksturinn hefur ekki staðið undir væntingum á síðustu árum að sögn Fréttablaðsins sem segir að ástæður þess séu aukin samkeppni, sem hefur leitt til lægra vöruverðs, og hækkandi launakostnaður. Blaðið segist hafa heimildir fyrir að mikið tap verði af sölunni en líklegt söluverð er sagt verða á bilinu 2 til 3 milljarðar króna. Ef svo fer tapa núverandi eigendur 5 til 6 milljörðum.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að nokkur tilboð hafi borist í fyrirtækið, bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Þar á meðal er hópur sem Birgir Þór Bieltvedt er í forsvari fyrir en hann hefur staðfest að tilboð hafi verið gert. Hann kom að stofnun Domino‘s 1993. Hann seldi fyrirtækið 2005 eftir farsælan rekstur en þá var verðmæti þess um 1,1 milljarður. Hann keypti reksturinn aftur 2011 af Landsbankanum fyrir um 560 milljónir. Hann hagnaðist því umtalsvert á sölunni 2016 og 2017 og undirbýr nú aðkomu að fyrirtækinu í þriðja sinn.