Í morgun var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness mál gegn þremur mönnum. Einum þeirra er gefin að sök stórfelld líkamsárás á mann í húsnæði að Hjallabrekku 1 þann 23. apríl á þessu ári. Er hann sagður hafa veitt manninum högg í höfuðið með þeim afleiðingum að árásarþolinn féll aftur fyrir sig og skall í gólfið, þannig að hann höfuðkúpubrotnaði og nefbrotnaði.
DV hefur ákæru héraðssaksóknara undir höndum. Hinn meinti árásarmaður og tveir aðrir menn sem voru á vettvangi eru ákærðir fyrir að hafa ekki komið manninum til bjargar eftir árásina, heldur skilið hann eftir liggjandi frammi á gangi húsnæðisins, farið burtu og hann lá eftir lífshættulega slasaður.
Þess er krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þeir eru allir frá Póllandi.
Þá er gerð einkaréttarkrafa fyrir hönd árásarþolans um að mennirnir greiði honum 7 milljónir króna í skaðabætur.
Ákæran var gefin út þann 23. nóvember en málið er nú komið af stað í dómskerfinu, fyrirtaka og aðalmeðferð verða eftir áramót. Við þingfestingu í morgun neituðu allir mennirnir sök í málinu.