„Þær ofsafengnu sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til vegna faraldursins verða greiddar dýrum dómum af skattgreiðendum næstu árin. Fjáraukalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ásamt fjárhagsáætlunum stærstu sveitarfélaganna undirstrika þennan veruleika. Samkvæmt tillögum meirihlutans að fjáraukalögum verður hallareksturinn 2021 mun meiri en áður var áætlað – hækkunin er um 55 milljarðar – og nema um 320 milljörðum, eða yfir tíu prósentum af landsframleiðslu,“ skrifar Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, í leiðara blaðsins í dag. Þar fer hann yfir framtíðarhorfur í rekstri þjóðarbúsins í samhengi við þann skaða sem kórónuveirufaraldurinn veldur.
Hörður hefur lengi verið gagnrýninn á sóttvarnaaðgerðir yfirvalda sem hann telur að hafi gengið of langt. Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, er fyrrverandi samstarfsmaður Harðar á DV. Eins og allir vita hefur Björn Ingi skrifað af miklum krafti um faraldurinn. Hann er ósammála áherslum síns gamla félaga og gagnrýnir hann í Facebook-pistli í dag:
„Þær ofsafengnu sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til vegna faraldursins verða greiddar dýrum dómum af skattgreiðendum næstu árin,“ segir Hörður Ægisson í leiðara Fréttablaðsins í dag. Hörður er vinur minn, gamall samstarfsmaður sem ég met mikils. En þarna er hann á undarlegri braut að mínu mati og sjálfsagt að ræða það aðeins málefnalega.
Hér á landi hafa sóttvarnaaðgerðir nefnilega verið með mildilegasta móti í samanburði við margar aðrar þjóðir; hér var aldrei útgöngubann, aldrei kveðið á um lokun allra verslana nema matvörubúða eins og víða eða her og lögregla látin fara um götur og reka fólk inn. Hér er líka besta staðan í allri Evrópu þegar faraldurinn geisar nú sem aldrei fyrr.
Í ótal leiðurunum Fréttablaðsins undanfarna mánuði er alltaf látið eins og íslenskt efnahagslíf væri í blóma ef ekki væri fyrir þennan sérlundaða sóttvarnalækni. En vandinn er ekkert Þórólfur Guðnason. Vandinn er kórónaveiran sem veldur COVID-19. Og af því við Íslendingar vorum heppin með þá sérfræðinga sem voru í brúnni og ríkisstjórn sem treysti á þá, förum við á endanum einna best þjóða út úr faraldrinum. Og einmitt þess vegna mun viðspyrna okkar verða hraðari þegar bólusetningar hefjast og lífið verður eðlilegt á ný.
Þýðir það, að allt sem sóttvarnalæknir sagði og gerði hafi verið rétt? Nei, auðvitað ekki. En Þórólfur hefur alltaf verið heiðarlegur með það og reynt að gera sitt besta.