fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Fréttir

Læknafeðgar sýknaðir af kæru Jóns Ívars um brot á siðareglum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 9. desember 2020 11:00

Samsett mynd DV. Jón Magnús Jóhannesson (t.v.) og Jón Ívar Einarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Læknarnir og feðgarnir Jóhannes Kári Kristinsson og Jón Magnús Jóhannesson hafa verið sýknaðir af kæru læknaprófessorsins Jóns Ívars Einarssonar til Siðanefndar lækna. Málið tengist deilum um sóttvarnaraðgerðir og hættuna af COVID-19.

Jón Ívar er læknaprófessor í Harward-háskóla í Boston. Hann er hluti af andófshópi Sigríðar Andersen, Út úr kófinu, og hefur talað með mildari sóttvarnaaðgerðum, einkum á landamærum.

DV greindi frá siðanefndarkæru Jóns gegn Jóni Magnúsi í september. Jón Magnús gagnrýndi harkalega þá framsetningu Jóns Ívars að dánartíðni Covid-19 sé 1 á móti 500. Um þetta segir í fréttinni:

„Fram hefur komið í greinum Jóns að hann telur aðgerðir stjórnvalda of harkalegar, þó að faraldurinn sé alvarlegur séu afleiðingar af honum ýktar og bendir hann í því samhengi á að dánartíðni sé 1 á móti 500 miðað við fjölda látinna af völdum sjúkdómsins hér á landi samanborið við fjölda þeirra sem hafa smitast. Jón Ívar bendir á til samanburðar að líkur á því að deyja úr hjarta- og æðasjúkdómum séu 1 á móti 7 og í bílslysi  1 á móti 114.

Í andsvörum sínum hefur Jón Magnús sakað Jón Ívar um að gera lítið úr alvarleika sjúkdómsins og hann segir að ummæli hans um dánartíðnina 1 á móti 500 standist ekki tölfræðilega skoðun því íslenska dæmið sé allt of smátt þegar um er að ræða svo stórtækan faraldur á heimsvísu.

Jón Magnús hefur sagt framsetningu Jóns Ívars vera óverjandi: „Eina talan sem er slengt fram er 1/500. Þessi tala er fengin út frá íslenskum gögnum, sem er alls ekkert viðeigandi í ljósi þess að við erum búin að vera með tiltölulega fá tilfelli, og enn færri dauðsföll. Í tölfræði þá er bara ekki hægt að alhæfa út frá takmörkuðum gögnum. Ef við hefðum verið með risastóran faraldur, með tugi þúsunda tilfella, þá hefði það verið áreiðanlegt,“ segir Jón Magnús í samtali við Vísi um málið. „Þegar maður er með svona stóran sjúkdóm, sem getur smitað tugi þúsunda [hér á landi] áætlar maður ekki líkur á dauða út frá litlum, takmörkuðum faraldri á Íslandi. Það er ekki hægt, það er bara ekki hægt. Að segja að það sé sirka 1/500 á því að deyja af völdum Covid-19 á Íslandi, það er bara ekki rétt,“ sagði hann jafnframt.“

Taldi unga lækninn ekki sýna sér háttvísi

Jóni Ívari gramdist hvað ummæli Jóns Magnúsar fengu mikið rými í fjölmiðlum. Hann sagðist telja áhugavert að láta reyna á hvort ummæli Jóns Magnúsar brytu gegn siðareglum lækna og tilfærði eftirfarandi ákvæði úr þeim í lokuðum umræðuhópi lækna: „Lækni er skylt að auðsýna öðrum læknum drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum, í ræðu og riti og hann skal forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna.“

Jón Ívar segist telja ummæli Jóns Magnúsar um skrif hans flokkast undir óviðeigandi umræðu um kollega í fjölmiðlum. Hann kærði einnig föður Jóns Magnúsar, Jóhannes Kára Kristinsson, fyrir brot gegn siðareglum lækna, á sama grundvelli.

Tapaðí málinu

Feðgarnir greina báðir frá niðurstöðu Siðanefndar lækna á Facebook-síðum sínum í dag. Við gefum Jóhannesi Kára orðið:

„Mörg ykkar vissu af því að við feðgar vorum kærðir til Siðanefndar Læknafélagsins af Jóni Ívari Einarssyni, kvensjúkdómalækni við Harvardháskóla. Niðurstaða þessa máls barst í gær og hún var skýr: Öllum kæruatriðum var vísað frá. Við brutum engar siðareglur og vorum einungis að taka málefnalegan þátt í umræðu sem er efst á baugi þessa dagana um heim allan.
Niðurstaðan undirstrikar einnig að læknar hafa málfrelsi líkt og aðrir í þjóðfélaginu. Þeir mega taka fullan þátt í umræðu í þjóðfélaginu, því ef læknir má ekki ræða læknisfræðileg mál á opinberum vettvangi, hver má það þá? Sérstaklega rætin árás Jóns Ívars á Jón Magnús, ungan sérnámslækni, var vítt í dómnum og er því afstaða Siðanefndar einnig skýr hvað varðar unga lækna. Rödd þeirra og skoðanir eru alveg jafn mikilvæg og raddir og skoðanir eldri kollega.
Ég vil þakka vinum og fjölskyldu fyrir frábæran stuðning á þessum furðulegu tímum, þið vitið hver þið eruð.
Þessi dómur hvetur alla lækna til að vera lifandi hluti þjóðfélagsins og leyfa vel ígrunduðum skoðunum sínum að koma fram og stýra opinberri umræðu um læknisfræðileg efni.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja