Gengi hlutabréfa í Icelandair Group var nú í morgun 1,55. Hærra hefur það ekki verið frá því hlutafjárútboð Icelandair fór af stað þann 17. september síðastliðinn, fyrir um tveim og hálfum mánuði síðan.
Útboðsgengið í hlutafjárútboðinu var 1 og lækkaði það niður fyrir 1 fyrstu vikurnar eftir útboðið. Gengið hækkaði í raun ekki fyrr en fréttir bárust af því að bóluefni Pfizer/BioNTech veitti 90% vernd og væri væntanlegt á markað. Þann mánudag hækkaði gengið úr 0,9 í 1,1 og hélt svo áfram að hækka uns það sat fast í 1,4. Í gær tók gengið svo annan kipp og sat í morgun við opnun kauphallarinnar, sem fyrr segir, í 1,55.
Verðmæti hlutabréfanna hefur því hækkað um 55% frá útboðinu. 74 dagar eru liðnir frá upphafi útboðsins. Ársávöxtun hlutabréfa sem keypt voru á genginu einn í hlutafjárútboðinu og seld í dag á genginu 1,55 er því 267,6%. Til samanburðar má nefna að innlánsvextir á óbundnum vaxtareikningum Landsbankans eru 0,25%.
Stærstu einstöku kaupendur í hlutum á Icelandair voru meðal annars lífeyrissjóðirnir LSR og Gildi. Þannig keyptu A og B deild LSR hluti fyrir rúmlega 1,8 milljarð og Gildi fyrir 1,5 milljarða. Lífeyrissjóðurinn Brú keypti enn fremur fyrir 1,3 milljarða.
Eins og staðan er í dag hefur verðmæti hlutafjáreignar þessara þriggja lífeyrissjóða hækkað sem svo segir:
LSR A og B deild: 990 milljónir
Gildi: 825 milljónir
Brú: 715 milljónir
Þátttaka lífeyrissjóðanna var mikið til umræðu í aðdraganda útboðsins, og þá helst LIVE, Lífeyrissjóð verslunarmanna. Sætti formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, gagnrýni fyrir að láta sig fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna varða. Hafði hann hvatt stjórn LIVE til að láta hlutafjárútboðið vera í kjölfar framgöngu stjórnenda Icelandair í kjaraviðræðum við flugfreyjur.