Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi, er látinn. Þetta kemur fram á Facebook-síðu félagsins.
Í fregninni segir enn fremur: „Þessa manns verður sárt saknað. Við viljum minna fólk á að bera virðingu fyrir aðstæðum sem fjölskylda hans er í og fara ekki heim til hans og hringja i fjölskyldumeðlimi stanslaust. Það eina sem við getum gert núna er að biðja Allah að blessa sál hans og inshallah hann verður háttsettur í paradís.“
Salmann flutti frá Palestínu til Íslands árið 1971, aðeins 16 ára gamall, og bjó hér allar götur síðan. Hann lærði tölvunarfræði við Háskóla Íslands og vann sem kennari, einnig í tölvudeild Landspítalans og á fleiri vinnustöðum. Hann stofnaði Félag múslíma á Íslandi árið 1997 og var forstöðumaður þess síðan.
Salmann beitti sér mjög fyrir réttindabaráttu Palestínumanna og var öflugur talsmaður palestínsku þjóðarinnar.
Eftirlifandi eignkona er Salmanns er Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir. Salmann Tamimi lætur eftir sig fimm börn og fjölda barnabarna.