Fréttablaðið skýrir frá þessu og hefur eftir Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, formanni skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, að verið sé að skoða hraðalækkandi aðgerðir um alla borg og að hún vonist til að þær verði samþykktar fyrir áramót.
Sigurborg var Andrési Inga Jónssyni, þingmanni utan flokka, innan handar við gerð frumvarps hans um lækkun hámarkshraða en frumvarpið hefur verið talsvert rætt í samfélaginu. Fréttablaðið hefur eftir Sigurborgu að tillaga Andrésar snúi að lagarammanum sjálfum svo ekki sé sjálfgefið að götur í þéttbýli séu með 50 km hámarkshraða heldur 30. „Svo líka að það sé á ávallt á forræði sveitarfélaga að ákvarða hámarkshraða í þéttbýli, ekki Vegagerðarinnar. Nágrannaþjóðir okkar eru að lækka viðmiðunarhraðann í þéttbýli, síðan er það sveitarfélaga að rökstyðja breytingar á því,“ sagði hún einnig.