fbpx
Fimmtudagur 05.desember 2024
Fréttir

Sindri var lagður í hrottalegt einelti – „Ég upplifði skóla sem fangelsi“

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 7. nóvember 2020 09:00

Sindri Viborg. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sindri Viborg var lagður í hrottalegt einelti í grunnskóla. Hann segir tjónið á sálinni gróa hægar en beinbrotin eða skurðir. Sindri hvetur foreldra til að horfast hreinskilnis-lega í augu við þann vanda sem einelti er.

Sindri Viborg kennaranemi var lagður í hrottalegt einelti sem barn og unglingur. „Fyrsta daginn í nýjum skóla var ég laminn tvisvar. Það markaði það líf sem svo tók við, og spannaði nokkur ár. Fyrst var þetta að mestu útskúfun frá leikjum í frímínútum og stöku árekstrar við aðra nemendur. Svo færðist þetta yfir í það að setið var fyrir manni á leiðinni heim og ég laminn. Barsmíðarnar jukust og fjöldi gerenda jókst.“

Sindri hefur unnið með börnum í 15 ár, er fimleika- og parkourþjálfari hjá Gerplu og er upphafsmaður parkour á Íslandi. Hann situr í stjórn Tourette-samtakanna á Íslandi. Hann er enn í dag að vinna úr sumum málum, og gerir fastlega ráð fyrir að sér endist ekki ævin til að klára öll þau mál sem tengd eru eineltistímabilinu.

Beinbrot og hnífsstunga

„Líkamlega ofbeldið færðist yfir í beinbrot og á endanum hnífstungu. Mér var stundum haldið af nokkrum á meðan tveir stukku í dekkjarólu og róluðu sér eins hátt og þeir gátu. Svo þegar það var komið var það tímasett að henda mér í veg fyrir róluna. Þetta braut rifbein og slökkti á þindinni í mér. Við tók svo það að sparka sandi í opinn munninn á mér á meðan ég barðist við að ná lungunum aftur í gang. Þetta var gert nokkrum sinnum.“

Sindri segir líkamlega tjónið gróa hraðar og gleymast fyrr en það andlega. „Það tók mig mörg ár að læra að líta í spegil og ekki hata það sem ég sá. Jafnvel eftir það þurftu að líða mörg ár í viðbót áður en ég var andlega fær um að vinna í gegnum þetta æviskeið mitt,“ segir hann.

Lét drauminn rætast

Ofbeldið hafði líka mikil áhrif á skólagöngu hans, hann reyndi árangurslaust að fara í nám eftir grunnskóla en flosnaði alltaf upp úr því. Eineltið stóð yfir frá því Sindri var 10- 14 ára og linnti ekki fyrr en hann fór í annan skóla í síðasta bekk grunnskóla.

„Ég upplifði skóla sem fangelsi og stað pyndinga. Það var ekki fyrr en í ár að ég loksins náði að klára menntaskólann þannig að ég kæmist í háskóla til að læra það sem mig langar til að verða. Ég verð fertugur eftir hálft ár,“ segir Sindri en hann lét gamlan draum rætast og hóf í haust kennaranám við Háskóla Íslands.

„Þau áföll sem ég varð fyrir sem barn gerðu það að verkum að ég hef sjaldan haldið upp á afmælið mitt, meira að segja á fullorðinsárum. Ég gerði slíkt í fyrsta sinn í sumar, eftir mörg ár, og meira að segja þá kveið ég svo fyrir afmælinu, því óttinn sagði mér strax að það myndi enginn koma, þar sem það var veruleikinn þegar ég var barn. Þarna sat ég, fullorðinn maðurinn, tíu mínútur í afmælið mitt með kvíðahnút á stærð við körfubolta í maganum.“

Sat einn á hópavinnuborði

Sindri upplifði stöðugt varnarleysi í grunnskóla því útskúfunin var ekki bara bundin við barnahópinn. „Inni í skólastofunni sat ég einn á hringborði, hópavinnuborðinu, mér var ekki leyft að sitja með öðrum börnum. Þannig að útskúfunin var geirnegld í skólastofunni. Þar sem kennararnir leyfðu sér að sýna bekknum fram á það að ég væri útskúfaður, þá var veiðileyfið á mér algjört. Eitt sinn stóð drengur upp frá borðinu sínu og lamdi mig í andlitið. Ég reyndi að verja mig fyrir höggunum, og þegar kennarinn sá það sem var í gangi var okkur stíað í sundur, hann sendur aftur í stólinn sinn og ég á fund með yfirkennaranum.“

Á þessum tíma fann hann fá, ef nokkur, bjargráð. Eineltið átti sér stað áður en hugtakið einelti var að fullu þekkt í samfélaginu og það var sannarlega ekki komið inn í skólakerfið. „Ég synti í þessum ólgusjó einn að mestu. Ef fullorðnir reyndu að gera eitthvað þá fékk ég bara enn verri útreið frá gerendunum næst þegar ég varð á vegi þeirra. Þöggunin var það eina sem hjálpaði við að gera ástandið ekki verra, en þöggun er engin lausn, frekar hjálpartæki til að viðhalda ástandinu.“

Þurfti að biðja geranda afsökunar

Oft fannst honum hjálpin vera á röngum forsendum og oft sett fram eins og verið væri að finna lausn á deilu tveggja samsekra einstaklinga. „Þá var lausnin sú að báðir voru kallaðir til yfirkennarans og svo áttu báðir að segja fyrirgefðu, og takast svo í hendur. Sú þvingun að neyða mann til að segja fyrirgefðu við dreng sem kom aftan að manni, barði mann niður í götuna og hoppaði svo ofan á brjóstkassann á manni, og taka svo í höndina á honum eins og ég hefði gert eitthvað rangt, er ekki raunveruleg lausn á vandanum. Þvert á móti þá var þetta valdeflandi fyrir gerandann, hann gat níðst á þolandanum, án nokkurra afleiðinga.“

Sindri bendir á að einelti sé svo miklu meira en bara það sem sést eða er gert. „Það eitt að vera laminn enn einn daginn, gengur á líkama manns. En að þurfa að horfa framan í spegil og fá staðfestinguna að þetta hafi gerst enn einu sinni. Að það sé ekkert sem maður getur gert til að sporna gegn því að þetta gerist aftur og vita að þetta muni gerast aftur, gengur á sálina hjá manni. Það tjón grær mun hægar en beinbrotin eða skurðirnir. Líkamleg ör verða, í gegnum árin, nær ósýnileg og gleymast. Svöðusárið á sálinni gleymist seint, ef einhvern tímann. Þetta andlega niðurrif nær á endanum að fá mann sjálfan til að vera meðhjálpari í ástandinu. Þú ferð að hata sjálfan þig fyrir það að aðrir eru að níðast á þér. Ætli það sé ekki tjónið sem er hvað erfiðast að laga. Álit manns sjálfs á sjálfum sér.“

Geigvænlegar breytingar

Þegar eineltið var sem allra verst bugaðist Sindri algjörlega. „Ég sá mér ekki lífdaga og fór gagngert í það að brjóta niður þau höft sem ég enn hafði svo ég gæti klárað þessa tilvist mína á jörðinni. Sem betur fer mistókst mér það ætlunarverk. En á þeirri vegferð varð ég sjálfur gerandi. Það eru hlutir þar sem ég get aldrei tekið til baka og aldrei lagað, eins mikið og ég vildi. Ég tjónaði samskipti mín við fjölskyldumeðlimi og þá fáu vini sem ég átti. Ég eyðilagði orðspor mitt tengt áhugamálum mínum.“

Og það urðu geigvænlegar breytingar á hegðun hans. „Ég fór úr því að vera heiðarlegur og yfir í að verða óheiðarlegur. Ég fór að stofna til slagsmála, ljúga, stela, níðast á minni máttar. Allt þetta var birtingarmynd þeirrar eymdar sem í mér bjó. Í dag get ég sagt að þetta hafi verið rangt af mér. Í dag get ég sagt að ég myndi vilja hafa gert þetta öðruvísi. En staðreyndin er sú að þegar búið er að brjóta mann niður svo árum skiptir, þá er þetta réttlætt af manni. Eins rangt og það hljómar.“

„Hættu strax“

Sindri á engin töfraráð til að laga einelti enda væri slíkum ráðum beitt ef þau væru til. „Eina sem ég get sagt við þolandann er að þetta er tímabundið ástand. Það mun líða hjá. Þangað til, þá snýst þetta um að tilkynna allt sem gerist, tilkynna það strax, bæði til foreldra og til kennara.“

Hann er líka með skilaboð til foreldra. „Fræðið börnin ykkar um samfélagsábyrgð. Fræðið þau um siðferði og samkennd. Setjist niður með börnunum ykkar og spyrjið þau beint hvort þeim líði vel og hvort allt sé í lagi. Ef þau segja ykkur að eitthvað sé að, gerið allt sem í ykkar valdi stendur til að hjálpa þeim og bæta ástandið. Bæði þolendur og gerendur þurfa aðstoð og stuðning til að komast úr þessu ástandi. Þetta eru börn og við fullorðnu berum þá ábyrgð að laga þetta ástand.“

Sindri hvetur foreldra gerenda til að horfast í augu við vandann. „Setningar eins og „sonur minn gerir ekki svona“ eða „dóttir mín segir ekki svona um aðra“, er ekkert annað en afneitun á því að barn viðkomandi hafi farið yfir strikið. Börnin okkar eru líkleg til alls, það er í þeirra eðli að testa rammann. Stundum fara þau langt út fyrir hann og þá verðum við að nálgast það af heiðarleika og auðmýkt, frekar en með afneitun og vörn.“

Stærsta gjöfin

Hann segir áhorfendur að einelti líka geta haft mikil áhrif. „Við áhorfandann hef ég það að segja að þú ert stór manneskja fyrir að standa upp og láta vita af því að verið sé að troða á samnemanda þínum. Þú ert hetja ef þú stoppar þetta af. Þegar þú ert eldri muntu átta þig á því að þetta var hugsanlega stærsta gjöfin sem þú gast gefið nokkrum á þessum tíma, að hjálpa þolandanum í eineltinu. Hvað gerandann varðar hef ég fá bein ráð, önnur en þau að leita sér hjálpar og hætta tafarlaust ofbeldinu gagnvart öðrum. Sama hver ástæðan er fyrir eineltinu þá er hún aldrei réttlætanleg, né heiðarleg. Hættu, og hættu strax.“

Viðtalið birtist fyrst í helgarblaði DV 30. október.

Einfalt er að kaupa prent- og/eða vefáskrift hér: dv.is/skraning

Menntamálaráðherra: Óásættanlegt að þolendur eineltis þurfi að flýja skólann sinn – Svona hefur þú samband við fagráð eineltismála

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Staða Pútíns er að breytast – Erfið kynslóðaskipti fram undan

Staða Pútíns er að breytast – Erfið kynslóðaskipti fram undan
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Segir rússneska herinn vera eins og „hjólaskóflu“

Segir rússneska herinn vera eins og „hjólaskóflu“
Fréttir
Í gær

Viktoría handtekin og fjórir fílefldir lögreglumenn fylgdu henni úr landi – „Þetta er ein besta sál sem ég hef kynnst“

Viktoría handtekin og fjórir fílefldir lögreglumenn fylgdu henni úr landi – „Þetta er ein besta sál sem ég hef kynnst“
Fréttir
Í gær

Stjórnarmyndunarviðræður hefjast á morgun – „Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra“

Stjórnarmyndunarviðræður hefjast á morgun – „Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra“
Fréttir
Í gær

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu
Fréttir
Í gær

Forseti Suður-Kóreu hefur lýst yfir herlögum

Forseti Suður-Kóreu hefur lýst yfir herlögum