Þormar Vignir Gunnarsson, ljósmyndari og trésmiður, er látinn. Hann varð bráðkvaddur að heimili sínu 12. nóvember síðastliðinn. Þormar var fæddur þann 30. september árið 1973 og kvaddi því í blóma lífsins.
Þormar var vinnusamur maður, hafði trésmíði að lifibrauði en starfaði líka ötullega að ljósmyndun, sem var ástríða hans. Hann vann til dæmis mikið fyrir DV og Morgunblaðið. Sigtryggur Ari Jóhannsson, ljósmyndari á Fréttablaðinu, á góðar minningar um samstarf við Þormar og minnist hans í stuttu samtali við DV:
„Það er leitun að þægilegri og blíðari manni. Í stétt fjölmiðlamanna, hvort sem það eru blaðamenn eða ljósmyndarar, hafa margir þörf fyrir að brynja sig gegn köldum veruleika með kaldhæðni. Þorri var ekki þannig heldur hreinn og beinn, ljúfur og þægilegur. Fyrir utan að vera góður ljósmyndari var hann vinnusamur og samviskusamur, fór alltaf í öll verk og skilaði alltaf öllu, aldrei neitt vesen. Indælisdrengur að vinna með. Hann var frekar hæglátur en mjög tilfinninganæmur. Hann var afspyrnu hjálpsamur og ljúfur drengur.“
Eftirlifandi eiginkona Þormars er Helena Benjamínsdóttir en þau giftust fyrir tveimur árum. Saman eignuðust þau dótturina Guðrúnu Von. Þormar lætur einnig eftir sig stúlku og pilt, Thelmu Rut, sem er tvítug, og Mikael Bjarka, 16 ára. Ennfremur lætur Þormar eftir sig stjúpdótturina Sólrúnu Líf.
Útför Þormars Vignis Gunnarssonar verður frá Langholtskirkju, fimmtudaginn 3. desember kl. 15. Vegna samkomutakmarkana verða aðeins allra nánustu aðstandendur viðstaddir en útförinni verður streymt á Youtube.
DV sendir fjölskyldu og vinum Þormars Vignis Gunnarssonar innilegar samúðarkveðjur.
Þeim sem vilja styrkja fjölskyldu Þormars fjárhagslega á þessum erfiðu tímum er bent á eftirfarandi styrktarreikning: 0511-26-5559 Kt. 020675-5519