Áfrýjunardómstóll í Tromsö í Noregi mun taka fyrir mál Gunnars Jóhanns Gunnarssonar þann 22 febrúar á næsta ári. Áætlaðir eru sex dagar í réttarhöldin. Þetta kemur fram í upplýsingum frá lögmanni Gunnars.
Gunnar var þann 20. október síðastliðinn dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir að hafa orðið hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana í norska smábænum Mehamn í Finnmörku í Norður-Noregi þann 27. apríl 2019.
Meginágreiningur milli Gunnars og ákæruvaldsins var sá að hann var sakaður um manndráp af ásetningi en hann sagði verknaðinn hafa verið slys enda hafi skot hlaupið úr byssu sem hann hafði meðferðis við átök bræðranna. Það vann hins vegar gegn Gunnari að hann mætti með skotvopn á staðinn.
Gunnar gerir sér vonir um að fá dóminn mildaðan við áfrýjunina í febrúar.