Andlát barns sem átti sér stað fyrir um tveimur mánuðum er til rannsóknar hjá lögreglu. Atvikið átti sér stað í sérstakri gæsluíbúð á vegum barnaverndar. Vefur Mannlífs greinir frá þessu.
Samkvæmt frétt Mannlífs varð atburðurinn á vistheimili á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Á heimilinu fer fram meðferð í foreldrahæfni. Ekki er vitað um aldur barnsins en það mun ekki vera eldra en þriggja ára.
Lögregla verst allra frétta af málinu og aðspurðir segja talsmenn lögreglu að ekki standi til að birta sérstaka tilkynningu um málið enda hafi lögregla ávallt mörg mannslát til rannsóknar hverju sinni.
Að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá Miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er ekki talið að andlát barnsins hafi borið að höndum með saknæmum hætti.